Nýjast á Local Suðurnes

Fjölmargir gestir lögðu leið sína í réttir í roki og rigningu

Veðurguðirnir voru ekki í sínu besta skapi síðastliðinn laugardag þegar réttað var í Þórkötlustaðarétt í Grindavík. Að vísu viðraði ágætlega á leitarfólk meðan fénu var smalað af fjalli en á laugardeginum var hávaðarok og úrhellis rigning. Veðrið virtist þó ekki hafa mikil áhrif á mætingu en fjölmargir gestir lögðu leið sína í réttirnar fyrir utan auðvitað bændur og búalið sem þurftu að draga sitt fé í dilka og koma í hús.

Heildarfjöldi gesta liggur ekki fyrir en samkvæmt heimildum Grindavík.is komu um 700 kindur af fjalli fyrir utan lömb svo að varlega áætlað má gera ráð fyrir að rúmlega 2.000 ær, lömb og sennilega einhverjir sauðir og mögulega stöku hrútur, hafi runnið í eina slóð til byggða um helgina.

Meðfylgjandi mynd tók Jóhanna Harðardóttir.