Nýjast á Local Suðurnes

Flugrottan kostaði Icelandair tugi milljóna króna

Gera má ráð fyrir að flugrottan svokallaða sem hélt til um borð í einni af flugvélum Icelandair í um viku tíma hafi kostað flugfélagið tugi milljóna króna en vélin var kyrrsett á meðan meindýraeyðir reyndi að ná dýrinu.

Samkvæmt fréttum á DV og Rúv höfðu ýmsar leiðir verið reyndar til að hafa hendur í hári flugrottunnar, meðal annars var reynt að eitra fyrir dýrinu með hefðbundnu eitri auk þess sem reynt var að dauðhreinsa flugvélina með einskonar eiturbombu að því er greint er frá á vef Rúv. Það var svo flugvirki sem fann og drap rottuna að lokum.

Guðjón Arngrímsson segir við Rúv að það gerist endrum og sinnum að meindýr komist um borð í flugvélar en starfsmenn Icelandair reki ekki minni til þess að rotta hafi áður komist um borð í vélar félagsins.

Hann vill ekki nefna hvert mögulegt tjón geti verið, en til að gefa hugmynd af kostnaði við rottuganginn setti Local Suðurnes sig í samband við erlendar fluvélaleigur og samkvæmt þeim er kostnaður við leigu á Boeing 757 flugvél á bilinu 7 til 10 milljónir króna á sólarhring, tölurnar geta þó hækkað eða lækkað töluvert eftir því hvert verkefni vélarinnar er. Það er því ljóst að tjón Icelandair vegna flugrottunar hleypur á tugum milljóna króna, en eins og áður sagði var flugvélin kyrrsett í um viku tíma.