Kaffitár kærir Isavia í sjöunda sinn – Vilja fá upplýsingar um keppinauta

Kaffitár hefur kært Isavia til úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna synjunar fyrirtækisins á afhendingu gagna vegna forvals um útleigu á veitingarými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Útboðið for fram árið 2014 og missti Kaffitár aðstöðu sína í flugstöðinni í kjölfarið.
Þetta er sjöunda kæra Kaffitárs vegna málsins, en Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í júní í fyrra að afhenda bæri gögn vegna forvalsins sem Kaffitár hafði þá óskað eftir. Aðalheiður Héðinsdóttir, stjórnarformaður Kaffitárs, segir að Isavia hafi í byrjun ársins afhent þeim einhver gögn sem óskað hafði verið eftir, en hins vegar hafi ríkisfyrirtækið strikað með svörtum tússpenna yfir þær upplýsingar sem fyrirtækinu fannst að Kaffitár ætti ekki að fá aðgang að, þær upplýsingar vilja stjórnendur Kaffitárs fá aðgang að.