Ókeypis í sund fyrir börn að 18 ára aldri
Börn sem búsett eru í Reykjanesbæ fá nú frítt í sund til 18 ára aldurs. Börn á aldrinum 10 til 18 ára þurfa að eiga sundkort sem fyllt er á í afgreiðslum sundlauganna þeim að kostnaðarlausu. Sundkortið kostar 750 krónur.
Um síðustu áramót var tekin sú ákvörðun að fella niður kostnað við sundferðir barna frá 10 ára aldri til 18 ára aldurs, en gjaldtaka hófst áður við 10 ára aldur. Að sögn Hafsteins Ingibergssonar forstöðumanns íþróttamannvirkja Reykjanesbæjar er þetta gert til að fjölga sundgestum á þessu aldursbili. „Okkur fannst börn á þessum aldri ekki vera að skila sé nógu vel í sundlaugarnar en við viljum endilega að þau komi oftar í sund. Við erum sífellt að vinna að heilsueflingu í bænum og liður í því er að fara reglulega í sund.“
Við 10 ára aldur þurfa börn ekki lengur að koma í sund í fylgd foreldra eða einstaklinga sem náð hafa 15 ára aldri. Nú geta þau komið gjaldfrjálst í sund til 18 ára aldurs með því að fá fría áfyllingu á sundkortið sitt í afgreiðslum sundlauganna. Þar er jafnframt hægt að kaupa kort til áfyllingar sem kostar 750 krónur.
Stefna Reykjanesbæjar í gjaldfrjálsum sundferðum barna til 18 ára aldurs rímar vel við lýðheilsustefnu Velferðarráðuneytis, þar sem kveðið er á um að sérstaka áherslu skuli leggja á börn og ungmenni að 18 ára aldri. Til hennar hefur verið horft í stefnumótun Reykjanesbæjar í lýðheilsumálum sem nú er í vinnslu, segir í tilkynningu á vef Reykjanesbæjar.