Lokaspretturinn: Fjölskyldufjör, partý aldarinnar, bjór og bingó
Lokabaráttan fyrir sveitastjórnarkosningarnar skellur á væntanlegum kjósendum af fullum þunga fyrir helgina og ljóst að af nægu verður að taka fyrir svanga, þyrsta og skemmtanaglaða kjósendur á lokasprettinum.
Bein leið mun bjóða mögulegum kjósendum upp á bjór og bingó á kosningaskrifstofu sinni við Hafnargötu í kvöld, margt verður gert til skemmtunar auk bingósins, en veislustjóri er enginn annar en Hjálmar Örn Jóhannsson snappari og skemmtikraftur og eftir bingó tekur dúettinn Heiður við og syngur fyrir dansi.
Píratar á Suðurnesjum eru í gírnum og slá upp PírataPartýi aldarinnar, rappararnir Kilo og Blaz Roca munu halda uppi stemningunni á föstudagskvöld og það langt fram á nótt. Það þarf vart að taka það fram frítt er inn á viðburðinn sem haldinn verður á skemmtistaðnum H30 við Hafnargötu.
Samfylkingin býður væntanlegum kjósendum upp á fjölskyldufjör á föstudag á milli klukkan 16 og 19 á kosningaskrifstofunni við Hafnargötu, hoppukastali, keppni í sápufótbolta fyrir 10 ára og eldri, keppni í pokahlaupi, limbói og eggjahlaupi, andlitsmálning og pylsur er á meðal þess sem boðið verður upp á auk þess sem teymt verður undir börn á hestum.