Nýjast á Local Suðurnes

Mikið álag á vaktstöðvum Vegagerðarinnar

Starfsmenn vaktstöðva Vegagerðarinnar eru á vakt allan sólarhringinn. Þeir fylgjast með færð og veðri, sjá til þess að ræsa út bíla til að moka og hálkuverja og meta hvenær þarf að loka vegum. Einnig fylgjast þeir grannt með aðstæðum í jarðgöngum og bregðast við ef eitthvað bjátar á.

Mikið mæddi á vaktstöðvum Vegagerðarinnar þegar óveður gekk yfir landið í byrjun desember síðastliðins. Hér verður farið yfir hvernig undirbúningur og starf starfsmanna vaktstöðvanna fór fram fyrir og meðan á óveðrinu stóð en það endurspeglar starf vaktstöðvarinnar í þeirri óveðurstíð sem hefur verið undanfarið. Neðar í greininni er farið yfir hvernig starfsemi vaktstöðva Vegagerðarinnar er háttað.

Óveður í aðsigi

„Veðrið kom ekki á óvart enda búið að spá því með nokkrum fyrirvara,“ segir Hulda Rós Bjarnadóttir sérfræðingur á vaktstöð suður. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur Vegagerðarinnar heldur vikulega fundi með vaktstöð og fer þá yfir það sem er í vændum. „Ljóst var að lægðin sem spáð var yrði óvenjuleg, vindatölur háar og náðu yfir bróðurpart landsins. Hitastigið var rétt við frostmark en afar erfiðar aðstæður geta orðið þegar frost og þýða mætast og ekki er hægt að sinna vegum vegna veðurofsa. Þá bráðnar snjór að hluta og verður að miklum ísmassa sem vindurinn þjappar enn meir.“

Vaktstjórar voru á tánum að morgni 9. desember. Skoðuðu vel spár frá Veðurstofu Íslands og útbjuggu lokunarskipulag fyrir alla vegi sem eru í þjónustu Vegagerðarinnar. „Ekki er gripið til lokana fyrr en nauðsyn krefur og með það í huga að enginn verði innlyksa þegar  óveðrið skellur á. Yfirmenn fara yfir lokunarskipulagið sem er síðan sent til Umferðarþjónustu Vegagerðarinnar en hún birtir upplýsingar um færð á Twitter og heimsíðu Vegagerðarinnar,“ lýsir Hulda.

Eftir þetta var farið í að skipuleggja hreinsun og að hálkuverja vegi sem eru í þjónustu Vegagerðarinnar. Einnig var hreinsað úr vegköntum til að draga úr líkum á að færð spilltist. Skoðað var hvaða vegi væri mögulega hægt að hafa opna lengur með aukinni þjónustu, svo sem leiðir til norðurs og suðurs úr borginni. „Mesta vinnan fer í að sinna Reykjanesbraut, Kjalarnesi, Hellisheiði, Þrengslum og Suðurstrandarvegi.“

Til að  fyrirbyggja að erlendir vegfarendur lokuðust inni á Þingvöllum, var ákveðið í samráði við lögreglu að loka Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði strax á mánudagsmorgun.Þeir vegir eru hluti af Gullna hringnum og því margir ferðamenn þar á ferð.

Bílstjórar á þjónustubílum Vegagerðarinnar hafa eftirlit með færð og eru í reglulegu sambandi við vaktstöð og segja til um hvort og hvenær þarf að loka vegum. „Vaktstöðin sendir síðan út póst á björgunarsveitir í tíma svo þær séu mættar við lokunarhlið þegar verður ófært,“ segir Hulda en í þetta sinn var hægt að halda Reykjanesbrautinni opinni þar sem hún náði að þorna áður en veðrið skall á af hörku. „Reynt er að halda Reykjanesbrautinni opinni í lengstu lög meðal annars vegna þess að mikinn mannafla þarf til að loka henni.“

Óveður skellur á

Helstu verkefni vaktstjóra meðan á óveðrinu stóð voru að fylgjast með færðinni, uppfæra lokunartíma, fylgja mokstursbílum eftir, gefa þeim fyrirmæli og koma öllum upplýsingum til Umferðarþjónustunnar. Einnig sækja almannavarnarfundi á Veðurstofunni.  „Þegar svona stendur á hringir síminn á vaktstöðinni viðstöðulaust, mikil samskipti eru í gangi á almannavarnarrásum tetra kerfisins og einnig hefðbundnum þjónusturásum Vegagerðarinnar,“ lýsir Hulda og áreitið er því mikið.

Þrír voru á dagvakt í stað tveggja á vaktstöð suður en á vaktstöð norður náðist að halda venjulegri mönnun. Tveir voru á næturvakt fyrir sunnan en lokað er á vaktstöðinni á Ísafirði frá 22 til 5:30 að morgni. „Um nóttina var minna  um að vera enda allir vegir lokaðir. Hins vegar þurfti að svara í neyðarsímann, undirbúa lokunarpósta til björgunarsveita og starfsmanna Vegagerðarinnar, svara símtölum frá almannavörnum varðandi færð og möguleika á að koma björgum til innilokaðra landshluta. Svo þurfti að sinna hefðbundinni skipulagningu hálkuvarna og snjóhreinsana á höfuðborgarsvæðinu þar sem veðrið var einnig slæmt.“

Mikið álag er á starfsmönnum vaktstöðva í törn sem þessari og andlega þreytan ekki síðri en sú líkamlega enda verkefnin mörg og ábyrgðin mikil. „Maður leggur allt sitt í verkefnið þegar svona stendur á og það sama á við um aðra viðbragðsaðila á borð við lögreglu, björgunarsveitir, umferðarþjónustu (#1777), starfsmenn þjónustustöðva, verktaka Vegagerðarinnar, Rarik og Almannavarnir. Þetta er erfitt en við látum það ganga upp.“

Vaktstöðvar suður og norður

Vaktstöðvar eiga sér nokkuð langa forsögu hjá Vegagerðinni en árið 2011 jókst umfang vöktunar verulega þegar Vegagerðin tók við þjóðvegum á stórhöfuðborgarsvæðinu. Þann vetur var vaktstöð suður formlega stofnuð og sinnti hún fimm þjónustustöðvum Vegagerðarinnar, í Hafnarfirði, Selfossi, Vík, Borgarnesi og Ólafsvík. Í dag sinnir hún þremur þjónustustöðvum, í Hafnarfirði, Selfossi og Borgarnesi.

Tvær aðrar vaktstöðvar voru reknar frá 2009, önnur á Ísafirði og hin á Reyðarfirði. Sú síðarnefnda var lögð niður 2011 og vaktstöðin á Ísafirði varð formlega vaktstöð norður sem sinnir 15 þjónustustöðvum á landinu.

Í dag er vaktstöð suður starfrækt í höfuðstöðvum Vegagerðarinnar í Borgartúni 7 en þangað flutti hún í lok árs 2015. Umfang þjónustunnar jókst á þeim tíma þegar bættust við þjóðvegir á Höfuðborgarsvæðinu og þjónusta jókst í þjónustuflokki 1, en þá er gert ráð fyrir þjónustu alla daga, allan sólarhringinn. Einnig stórjókst umferð um helstu vegi á Suðurlandi sem jók álag og fjölgaði verkefnum vaktstöðvarinnar.

Níu manns starfa á vaktstöð suður. Árið 2019 hófust þar vaktir allan sólarhringinn allt árið þegar eftirlit með Hvalfjarðargöngum bættist við verkefni stöðvarinnar. Starfsmenn svara í neyðarsíma Vegagerðarinnar á nóttunni þegar umferðarþjónusta Vegagerðarinnar er lokuð, en hjá umferðarþjónustunni eru veittar upplýsingar um færð og veður í síma 1777.  Á nóttunni sinna starfsmenn vaktstöðvarinnar einnig vöktun allra jarðganga landsins meðan vaktstöð norður er lokuð.

Sex manns auk yfirmanns starfa á vaktstöð norður ásamt einum aðstoðarmanni á veturna. Tveir eru á vakt í einu, annar fylgist með NV svæði og hinn NA svæði. Þriðji vaktmaðurinn kemur inn á álagstímum á morgnana. Í vaktstöð norður eru vöktuð öll jarðgöng sem eru í umsjón Vegagerðarinnar fyrir utan Hvalfjarðargöng. Starfsmenn vaktstöðvar suður taka við vöktun þessara ganga á nóttunni.

Helstu verkefni

Helstu verkefni vaktstöðvanna snúa að vöktun á vegaástandi, skráningu á færð þjóðvega, hvenær er þörf á hálkuvörnum, stýringu aðgerða og miðlun upplýsinga meðal annars til lögreglu, björgunarsveita, verktaka í mokstri, umferðarþjónustu, þjónustustöðva Vegagerðarinnar og almannavarna.

Upplýsingar koma úr vefmyndavélum Vegagerðarinnar, frá Veðurstofu Íslands og úr samtölum við starfsmenn Vegagerðarinnar sem sinna eftirliti og skila inn færðarskráningu sem unnið er úr.

Starfsmenn fylgjast afar vel með veðri en hjá Vegagerðinni starfar veðurfræðingur sem er í góðum tengslum við þá sem eru á vakt. Einnig vinna starfsmenn mikið með gögn frá Veðurstofu Íslands.

Þegar von er á hálku og tekin er ákvörðun um að hálkuverja fer af stað ákveðið ferli í gegnum boðunarkerfi sem vaktstöðin notar. Þegar kalla þarf út bíl til að hálkuverja eru send boð í boðunarkerfi á viðkomandi verktaka með staðsetningu og verklýsingu. Verktakinn fær þá SMS, svarar og fer strax af stað. Með vefkerfinu SiteWatch er hægt að fylgjast með stöðu og staðsetningu tækja og fá lykiltölur um saltmagn, dreifibreidd og kílómetrafjölda.

Lokanir eru ákvarðaðar út frá veðurspá. Yfirleitt eru slíkar lokanir ákveðnar með nokkrum fyrirvara, eða sett á óvissustig um að það geti komið til lokana á vegum. Ekki er tekið létt á slíkum ákvörðunum en aldrei er lokað af ástæðulausu heldur alltaf með öryggi vegfarandans í huga. Það getur haft afdrifaríkar afleiðingar að loka of seint. Einn fastur bíll sem síðan skefur í kaf getur myndað stóran skafl sem veldur því að vegurinn verður ófær. Þá þarf að nota stórvirkar vinnuvélar til að moka í stað hefðbundinna mokstursbíla sem tekur mun lengri tíma en annars væri.

Vöktun Hvalfjarðarganga

Erfiðustu ákvarðanir sem starfsmenn vaktstöðvanna þurfa að taka er að loka vegum og göngum, ekki síst Hvalfjarðargöngum sem mikil umferð er í gegnum. Til gamans má geta að samanlögð umferð um öll jarðgöng á landinu eru nálægt því að jafnast á við umferð í gegnum Hvalfjarðargöng einum og sér.

Mikil vinna felst í vöktun Hvalfjarðarganga. Fylgjast þarf með mengun og loka göngunum vegna bilaðra  bíla eða slysa. Iðulega vara lokanir vegna bilaðra bíla í um 10 til 25 mínútur en geta varað í allt að 2 klst. ef stór ökutæki festast í göngunum. Einnig er göngunum lokað ef neyðarflutningur frá sjúkrahúsinu á Akranesi þarf greiða leið í gegnum göngin.