Nýjast á Local Suðurnes

Aðsent: Gerum þetta saman

Í hartnær 20 ár hef ég tekið þátt í grasrótarstarfi Sjálfstæðisflokksins, nú óska ég eftir stuðningi Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi til að stíga nær beinum áhrifum. Ég tók því ákvörðun um að gefa kost á mér í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.

Það er vissulega leiðigjarnt þegar stjórnmálamenn boða að þeir muni flytja fjöll, fái þeir til þess stuðning. Ég ætla að reyna að falla ekki í þá gryfju. Eftir sem áður vil ég kynna hver ég er, fyrir hvað
ég stend og fyrir hverju ég vil berjast.

Ég er Eyjamaður, fæddur inn í afar venjulega íslenska alþýðufjölskyldu. Foreldrar mínir bæði kennarar, fjölskyldubíllinn Skoda og við börnin á heimilinu fjögur talsins. Leið mín lá fyrst á sjóinn með millilendingu í Stýrimannaskólanum hvar ég lærði skipstjórn. Ég starfaði sem sjómaður í um 20 ár lengst af sem stýrimaður og skipstjóri. Á ákveðnum krossgötum söðlaði ég um. Fékk starf í tónlistarskólanum og lærði í framhaldinu til kennara og síðar menningarstjórnunar við Bifröst. Í dag
starfa ég sem skólastjóri Tónlistarskóla Vestmannaeyja og stjórnandi Lúðrasveitar Vestmannaeyja. Ég byrjaði seint markvissa þátttöku í stjórnmálum og ætlaði mér ekki neitt annað en starf í grasrótinni.

Að styðja gott fólk til góðra verka. Nú tel ég mig hins vegar vera tilbúinn til að axla aukna ábyrgð.

Ég er klassískur hægri maður. Hef einlæga trú á mátt einstaklingsins og frelsi hans til orða og athafna. Ég tel að grunnþáttur þess að vera sannur talsmaður einstaklingsfrelsis sé fullkomin og alger virðing fyrir vali og eðli hvers og eins. Þar með séu sundurgreinandi breytur, eins og kyn, aldur, kynhneigð, stétt og staða, ekki eingöngu léttvægar heldur óviðkomandi. Það sem máli skiptir er einstaklingurinn
og hvernig hann stígur fram. Samtrygging á sviði menntunar og heilbrigðismála er í mínum huga jákvæð en útilokar hvergi aðkomu einkafyrirtækja. Ég er landsbyggðarmaður og vil sem slíkur sjá
byggð dafna um allt land. Ég er alþjóðasinni en tel það hreinlega fráleitt að ljá á því máls að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Mínar helstu áherslur liggja á sviði menningar og undirstöðuatvinnuveganna. Ég tel menningu vera helstu grunnstoð mannlífs á hverjum stað. Ég þekki sjávarútveginn vel, tel að við þurfum að standa um hann vörð og veit að sú grein hefur haldið i okkur lífinu í gegn um tíðina. Þá tel ég mikil sóknarfæri liggja í íslenskum landbúnaði með sívaxandi fæðuþörf heimsins og áherslu á vistvæna og heilsusamlega fæðu.

Ég er nýr á þessum vettvangi og áskil mér rétt til að þroska skoðanir mínar og jafnvel að skipta um þær ef rök falla þannig. Ég vonast til að geta átt samskipti við sjálfstæðismenn um allt kjördæmið
fram að prófkjöri og með enn auknum krafti eftir það, fái ég til þess umboð. Ég vil því hér með hvetja þig til að hafa samband við mig og lýsi mig tilbúinn til að heimsækja hvern einasta vinnustað og hvern einasta íbúa, eins og aðstæður leyfa.

Ræðum málin og setjum hina sönnu stefnu Sjálfstæðisflokksins á dagskrá. Ég vil að við gerum þetta saman.

Jarl Sigurgeirsson
jarlsig@gmail.com