Njarðvíkingar steinlágu í fyrsta leik Hauks Helga

KR vann stórsigur á Njarðvíkingum þegar liðin mættust í Frostaskjóli í gær, 105-76. Leikurinn var fyrsti leikur Hauks Helga Pálssonar með Njarðvíkingum, en KR-ingar léku án landsliðsmannanna Helga Más Magnússonar og Pavels Ermolinskij sem eru meiddir.
Það var einungis í fyrsta leikhluta sem jafnræði var með liðunum en eftir það stungu KR-ingar af, að loknum fyrri hálfleik var staðan orðin 58:41. Fljótlega í þriðja leikhluta var ljóst hvert stefndi en staðan eftir hann var orðin 88-61. Leiknum lauk síðan með sigri KR-inga 105-76.
Marquise Simmons skoraði 24 stig og tók 9 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson skoraði 14 og Haukur Helgi Pálsson skoraði 13 stig, tók 13 fráköst og átti 6 stoðsendingar í sínum fyrsta leik.