Nýjast á Local Suðurnes

Ráðherrar Suðurkjördæmis hafa ferðast fyrir tugi milljóna

Ódýrasta ferðin kostaði 13.000 krónur.

Þau Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa samtals farið í 34 utanlandsferðir á yfirstandandi kjörtímabili, þar af hefur Ragnheiður Elín farið í 22 ferðir og Sigurður Ingi í 12. Þetta er meðal þess sem fram kemur í svörum ráðherranna við fyrirspurn Katrínar Júlíusdóttur á Alþingi.

Kostnaðurinn við ferðir ráðherranna beggja, sem farnar hafa verið frá maí 2013 til maíloka 2015, nemur rúmlega 30 milljónum króna.

Ragnheiður Elín verið 84 daga á ferðalagi

Ferðir ráðherranna hafa verið mislangar og miskostnaðarsamar, þannig fór Sigurður Ingi í 9 daga ferð á til Chile þar sem hann hélt fyrirlestur á Aqua-Sur sem er ráðstefna um sjávarútvegsmál, auk þess sem hann heimsótti fiskeldisstöðvar og vinnslustöðvar í landinu, kostnaður við þá ferð var rúmar 2,3 milljónir króna.

Sigurður Ingi hefur samtals verið 48 daga á ferðalagi á þeim tveimur árum sem núverandi ríkisstjórn hefur starfað og er kostnaðurinn við ferðir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tæplega 12 milljónir.

ragnheidur elin

Ragnheiður Elín Árnadóttir

Ragnheiður Elín hefur verið heldur meira á faraldsfæti en Sigurður Ingi, en hún hefur verið 84 daga á ferðalagi í embættiserindum frá maí 2013, með henni í för hefur verið fylgdarlið á vegum ráðuneytisins í öllum ferðum nema einni, sem var dagsferð í tengslum við fyrsta flug WOW Air til Washington, það er jafnframt sú ferð sem kostaði minnst, eða 12.977 krónur.

Ferðalög Ragnheiðar og fylgdarliðs í embættiserindum hefur kostað Ríkissjóð tæplega 20 milljónir króna, dýrasta ferðin var farin til Ástralíu á ráðstefnu um orkumál,World Geothermal Congress, en þar dvaldi ráðherrann í 7 daga ásamt 3 fylgdarmönnum og kostaði sú ferð ráðuneytið um 3 milljónir.

Til samanburðar má geta þess að heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson hefur farið í fimm utanlandsferðir á kjörtímabilinu og er heildarkostnaður við ferðalög Kristjáns Þórs og fylgdarmanna rétt um 4 milljónir króna.