Nýjast á Local Suðurnes

ÍRB sigra AMÍ 5. árið í röð – 53 verðlaunahafar af Suðurnesjum

Reykjanesbær átti 53 verðlaunahafa á AMí í sundi

AMÍ var haldið á Akureyri um síðustu helgi. Í ár var horfið aftur til þess skipulags að hafa bæði yngri sundmenn og eldri en 15 ára saman og var því vel tekið. Stór hópur stuðningsmanna fylgdi keppendum ÍRB svo aðstæður gátu ekki verið betri.

ÍRB vann 94 gull, 75 silfur og 55 brons og má segja að það sé vitnisburður um þá miklu vinnu sem sundmenn, þjálfarar og foreldrar leggja af mörkum. ÍRB átti 19% af sundmönnum á mótinu en tókum til okkar 28,5% af stigunum og 40% af gullverðlaunum, segir á heimasíðu ÍRB. Samkvæmt reglum mótsins telja aðeins tveir sundmenn frá hverju liði í hverri grein (regla sem var innleidd fyrir 4 árum) og í því ljósi er þessi árangur enn merkilegri.

ÍRB náði 1745 stigum og var öruggt í fyrsta sæti en í örðu sæti voru Blikar með 893 stig og í því þriðja SH með 877 stig.

ÍRB átti 33 einstaklinga sem náðu að vera aldursflokkameistarar sem er stærri hópur heldur en mörg lið náðu að senda á mótið. Ennfremur náðu 48 einstaklingar frá ÍRB að vinna til verðlauna í einstaklingskeppni og alls náðu 53 úr liðinu að vinna til verðlauna þegar boðsund eru talin með af 60 manna liði.

Anthony Kattan fráfarandi yfirþjálfari ÍRB til fimm ára sagði: „ Stefna okkar er að byggja frábært lið glaðra sundmanna sem skara fram úr á öllum sviðum, ekki bara í lauginni. Þetta varð raunin, jafnvel þó tveir okkar bestu sundmanna væru að keppa fyrir Ísland í Baku á Evrópuleikunum. Dýptin í liðinu okkar þýddi það að aðrir sundmenn gátu stigið upp og tekið við keflinu“.

„Þetta var frábær vika fyrir liðið okkar sem hefur bara aukið styrk sinn og forskot á Aldursflokkameistaramótinu á hverju ári síðan á fyrsta árinu mínu hér 2010/2011 þegar við náðum bikarnum aftur til okkar. Mikill vinna er að baki“