Nýjast á Local Suðurnes

Nærri 200 heimilisofbeldismál á borð lögreglu frá því samstarf hófst við félagsþjónustu

Samstarfsverkefnið milli Lögreglustjórans á Suðurnesjum og félagsþjónustu sveitarfélaga á Suðurnesjum varðandi heimilisofbeldi, Að halda glugganum opnum, var kynnt fyrir Velferðarnefnd Reykjanesbæjar á dögunum. Samstarfið sem hófst þann 1. febrúar 2013, hefur gengið vel og er svo komið að það hefur verið tekið upp í nokkrum sveitarfélögum, þar á meðal Reykjavík.

Í kynningunni, sem María Gunnarsdóttir, forstöðumaður barnaverndar hélt á fundinum, kemur fram að eitt af markmiðum verkefnisins sé að koma skýrum skilaboðum út í samfélagið um að ofbeldi á heimilum verði ekki liðið og að einnig að auka þjónustu við þolendur heimilisofbeldis ásamt því að styrkja rannsóknarþáttinn hjá lögreglu. Samstarfið milli Lögreglustjórans á Suðurnesjum og félagsþjónustur á Suðurnesjum hefur verið mjög gott, þróun á verklagi hefur verið á tímabilinu ásamt reglulegum samráðsfundum.

Þá kemur fram í kynningunni að á árunum 2015 til 2019 hafi alls 188 heimilisofbeldismál komið upp hjá lögreglunni á Suðurnesjum í Reykjanesbæ. Í 89% mála var meintur gerandi karlkyns og 79% mála var brotaþoli kvenkyns. Algengasti aldur meints geranda var á bilinu 21-30 ára eða í 48 málum næst þar á eftir var aldursbilið 31-40 ára og það sama var með aldur brotaþola. Tengslin milli meints geranda og brotaþola var algengast að einstaklingar væru í hjónabandi eða sambúð.

Varðandi þjóðerni þá voru flestir Íslendingar meints geranda í 136 málum af 188 og því næst Pólverjar í 25 málum af 188. Varðandi brotaþola þá var algengast að þeir voru Íslendingar í 139 málum af 188 og því næst Pólverjar í 26 málum af 188. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum er að yfirfara öll mál frá 1. janúar 2018 og ofangreind tölfræði getur því tekið breytingum við þá yfirferð.

Í kynningunni kom einnig fram að engin börn hafi verið á heimili í 77 málum af þeim 188 sem upp komu.