Samkeppnin harðnar í bílastæðaþjónustu við Leifsstöð – Áhrifavaldur ætlar sér stóra hluti

Enn bætist í flóru þeirra fyrirtækja sem þjónusta þá ferðalanga sem kjósa að skilja bíla sína eftir á Keflavíkurflugvelli þegar ferðast er frá landinu.
Base Parking var fyrst fyrirtækja til að bjóða upp á þessa þjónustu en það hóf starfsemi um mitt ár 2017. Fyrirtækið hefur átt í útistöðum við Isavia, rekstraraðila flugstöðvarinnar nær allar götur síðan. BaseParking hefur meðal annars lagt inn kvörtun til samkeppniseftirlitsins vegna framkomu Isavia í þeirra garð, en forsvarsmenn fyrirtækisins segja ríkisfyrirtækið leggja stein í götu þeirra við hvert tækifæri, meðal annars með tilraunum til að leggja sektir á fyrirtækið fyrir að nota stæði við flugstöðina og að bjóða upp á sömu þjónustu og BaseParking geri.
Smart Parking hóf að bjóða sömu þjónustu ári síðar, en fyrirtækið hefur stæði til umráða í Reykjanesbæ. Samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins hefur félagið séð um að geyma bíla fyrir yfir 7.000 viðskiptavini.
Toppbón hóf nýlega að bjóða sömu þjónustu undir merkjum VIP Parking, en fyrirtækið hefur aðstöðu á Ásbrú.
Nýjasta viðbótin í flóruna er síðan Park and Fly, sem hefur starfsemi í september. Fyrirtækið hefur verið ábrandi á samfélagsmiðlunum undanfarið en það er í eigu einnar vinsælustu SnapChat-stjörnu landsins, Reynis Bergmann sem ætlar sér stóra hluti á þessum vettvangi sé eitthvað marka SnapChat-færslur kappans. Þá hefur hann verið ófeiminn við að leyfa fylgjendum sínum á miðlinum að fylgjast með framkvæmdum við aðstöðu fyrirtækisins.
Þá býður rekstraraðili Keflavíkurflugvallar, Isavia, upp á svipaða þjónustu á umráðasvæði sínu við Leifsstöð.
Verðskrár fyrirtækjanna má sjá hér fyrir neðan, en þau bjóða upp á mismikla þjónustu fyrir utan geymslu á bílum.