Nýjast á Local Suðurnes

Njarðvíkingar eiga harma að hefna – Njarðvík B leikur til úrslita gegn KR

B-lið Njarðvíkur hefur aðeins tapað einum leik í vetur - Þeir ætla að halda því þannig

Það má búast við hörkuleik í hádeginu á laugardag þegar B-lið Njarðvíkinga mætir til leiks í íþróttahús Kennaraháskólans og keppa til úrslita í annri deildinni í körfuknattleik. Mótherjarnir eru B-lið KR þannig að Njarðvíkingar hafa tækifæri á að leita hefnda gegn vesturbæingum, sem fóru illa með Njarðvíkinga í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar í körfuknattleik á dögunum.

B-liðið fór í gegnum tímabilið af ótrúlegum krafti, sé miðað við meðalaldur og kílóafjölda liðsins, liðið tapaði aðeins einum leik í deildarkeppninni og vann fjórtán. Liðið er að mestu skipað gömlum og reynslumiklum kempum en þó í bland við unga og efnilega drengi, flott blanda sem virðist virka fínt, því liðið hefur unnið þessa keppni undanfarin ár, auk þess að komast í 8-liða úrslit Poweade-bikarsins, hvar liðið tapaði gegn Keflvíkingum sem þá voru efstir í Dominos-deildinni.

Njarðvíkingar munu tefla fram afar sterku liði en á meðal leikmanna verða væntanlega baráttujaxlinn Halldór Karlsson, frákastamaskínan Páll Kristinson og töframaðurinn Sverrir Þór Sverrisson, þá má væntanlega sjá þeim Hilmari Hafsteinssyni, Sævari Garðarssyni, Ásgeiri Guðbjartssyni og Kristni Erni Agnarssyni bregða fyrir. Herlegheitunum verður svo væntanlega stýrt af þjálfara Mini-Boltaskóla Njarðvíkur, Agnari Gunnarssyni.

Af einhverjum ástæðum verður leiknum ekki sjónvarpað beint, þannig að það er um að gera fyrir Njarðvíkinga og aðra áhugamenn um körfubolta og almenn skemmtilegheit að taka rúntinn í miðborg Reykjavíkur á laugardag, fá sér ís og horfa á alvöru körfubolta. Leikurinn hefst klukkan 12.