Nýjast á Local Suðurnes

B-lið Njarðvíkur peppað í leikinn gegn Haukum: “Ætlum okkur áfram í þessari keppni”

Eitt besta B-lið heims í körfuknattleik, B-lið Njarðvíkur, fær úrvalsdeildarlið Hauka í heimsókn í Ljónagryfjunna í 16 liða úrslitum Malt-bikarkeppninnar á sunnudagskvöld. Njarðvíkingar komu á nokkrum Borgnesingum á óvart í 32ja liða úrslitum keppninnar þegar liðið lagði Skallagrím að velli með 100 stigum gegn 95.

Njarðvíkingar hafa á að skipa reynsluboltum í faginu sem eiga um 200 A-landsleiki að baki og ætla sér ekkert annað en sigur í leiknum á sunnudag og þar með sæti í 8-liða úrslitum keppninnar.

“Þessir menn fara í alla leiki til að sigra,” segir reynsluboltinn Halldór Karlsson, þjálfari liðisins. “Leikurinn á sunnudag er engin undantekning þar á. Við ætlum okkur áfram í þessari keppni.” Sagði Halldór í spjalli við Suðurnes.net.

Áhorfendur í Gryfjunni mega eiga von á því að fá eitthvað fyrir peninginn þegar liðið mætir Haukum enda leikmenn B-liðsins þekktir fyrir allt annað en rólegheit þegar á völlinn er komið. Leikur liðanna fer, sem fyrr segir fram í Ljónagryfjunni á sunnudagskvöld, og hefst klukkan 19:15.