23% íbúa á Suðurnesjum eru innflytjendur

Hlutfall innflytjenda af mannfjölda um síðustu áramót var mest á Suðurnesjum en þar voru 23,3% innflytjendur af fyrstu eða annarri kynslóð. Næsthæst er hlutfallið á Vestfjörðum þar sem 17,6%.
Í tilkynningu frá Hagstofu Ísands kemur fram að Pólverjar séu langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi. Um áramót voru 16.970 einstaklingar frá Póllandi eða 38,8% allra innflytjenda. Þar á eftir koma innflytjendur frá Litháen (5,5%) og Filippseyjum (4,0%). Pólskir karlar eru 42,2% allra karlkyns innflytjenda eða 10.037 af 23.775. Litháískir karlar eru næstfjölmennastir (6,2%) og síðan karlar með uppruna í Lettlandi (3,5%). Pólskar konur eru 34,7% kvenkyns innflytjenda og næst á eftir þeim eru konur frá Filippseyjum (5,9%), þá konur frá Litháen (4,8%).
Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra sem einnig eru fæddir erlendis, svo og báðir afar og ömmur. Önnur kynslóð innflytjenda eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur. Fólk er talið hafa erlendan bakgrunn ef annað foreldrið er erlent. Einstaklingur sem fæddist erlendis en á foreldra sem báðir eru fæddir hér á landi telst einnig hafa erlendan bakgrunn.