Nýjast á Local Suðurnes

Sandgerðisbær óskar eftir því að póstnúmer fyrirtækja við FLE verði leiðrétt

Bæjarráð Sandgerðisbæjar hefur ítrekað óskað eftir því við Íslandspóst að póstföng fyrirtækja innan sveitarfélagsins verði leiðrétt, en um er að ræða fyrirtæki sem staðsett eru í og við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Eins og málum er háttað núna eru fyrirtæki sem hafa starfsemi á Keflavíkurflugvelli skráð í póstnúmer 235, sem er póstnúmerið fyrir Ásbrúarsvæðið og tilheyrir því Reykjanesbæ.

 

Ólafur Þór Ólafsson, bæjarfulltrúi í Sandgerðisbæ, segir málið ekki hafa tekjulega þýðingu fyrir sveitarfélagið, heldur snúist það aðallega um það að menn telji eðlilegt og rétt að fyrirtæki séu skráð til heimilis í því sveitarfélagi sem þau eru. Þá segir Ólafur Þór málið hafa verið í vinnslu í langan tíma og að það hafi gengið hægt að fá þessu breytt.

“Það er enginn peningalegur ávinningur af þessu. Okkur finnst bara ákveðið réttlætismál að sú starfsemi sem er innan okkar bæjarmarka sé ekki merkt öðrum sveitarfélögum, eða að svæði innan Sandgerðisbæjar beri póstnúmer annars sveitarfélags, en það hefur gengið frekar hægt að fá þessu breytt.” Segir Ólafur Þór.