Nýjast á Local Suðurnes

Reyni veitt viðurkenning fyrir framlag til atvinnu-, ferða- og menningarmála

Reyni Sveinssyni var veitt sérstök viðurkenning fyrir framlag sitt til atvinnu-, ferða- og menningarmála í Sandgerði við hátíðlega athöfn í Safnaðarheimilinu í Sandgerði þann 24. ágúst síðastliðinn.

Viðurkenninguna veitti Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri fyrir hönd atvinnu-, ferða- og menningarráðs Sandgerðisbæjar. Af því tilefni sagði hún meðal annars:

“Reynir er kvikur og ötull frumkvöðull sem aldrei hefur  legið á liði sínu við að bæta og efla hag samfélagsins. Hann hefur gegnt ótal trúnaðarstörfum fyrir bæjarfélagið, látið að sér kveða og verið virkur í félagasamtökum í bænum, verið formaður sóknarnefndar um árabil og átt frumkvæði af nýjungum í ferða- og menningarmálum. Hann hefur byggt upp  dýrmætar heimildir um sögu og þróun samfélagsins með miklum fjölda ljósmynda sem hann hefur tekið á liðnum árum og áratugum. … Það er ómetanlegt  fyrir hvert samfélag að eiga einstaklinga eins og Reyni Sveinsson sem haft hefur mikil og jákvæð  áhrif  á sitt samfélag og verið einn helsti kynningarfulltrúi þess. Reynir hefur sinnt sínum verkefnum af stakri prýði og með miklum sóma.”

Reyni voru afhent  blóm og viðurkenningarskjal, og færðar þakkir sérstakar þakkir fyrir framlag sitt til samfélagsins.