Nýjast á Local Suðurnes

Keflavíkurflugvöllur eini flugvöllurinn á norðurlöndunum sem er lokaður í dag

Í dag eru ekki á dagskrá neinar flugferðir til útlanda frá Keflavíkurflugvelli, íslensku flugfélögin, Icelandair og WOW air hafa til að mynda ekki boðið upp á flug héðan á þessum degi.

Frá flughöfnum nágrannalandanna er hins vegar boðið upp á millilanda- og innanlandsflug í dag. Samgöngurnar til útlanda takmarkast ekki við stærstu flughafnir höfuðborganna því frá minni flugvöllum, til að mynda Bergen, Billund og Gautaborg, er einnig flogið til áfangastaða í útlöndum í dag. Þetta kemur fram á vef Túrista.

Í fyrra þurfti að opna íslensku flugstöðina um kaffileytið því þá kom hingað þota easyJet frá Genf í Sviss og tók vélin á loft á ný tveimur tímum síðar. Þetta var í fyrsta skipti sem taka þurfti á móti áætlunarflugi í Leifsstöð á jóladag.

easyJet gerir hins vegar hlé á Íslandsflugi sínu í dag og sömu sögu er að segja um önnur erlend flugfélög, til að mynda British Airways og SAS, sem hefðu samkvæmt áætlun átt að fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli í dag.