Nýjast á Local Suðurnes

Ekki vitað hvað olli klukkustundar löngu rafmagnsleysi – Hafði áhrif á árangur í tölvuleikjum

Ekki er enn vitað hvað olli klukkustundar löngu rafmagnsleysi í Innri – Njarðvík, Vogum og á Fitjum í gær, en rafmagn fór af um klukkan fimm síðdegis og kom á um klukkan 18. Í tilkynningu á vef Landsnets segir að spennir 1 og 2 í tengivirkinu Fitjum hafi leyst út. Þá kemur fram að verið sé að skoða hvað olli því að útleysing hafi orðið á búnaði HS veitna, en að ekki sé vitað um orsökina að svo stöddu.

Ýmis misalvarleg vandamál fylgja klukkustundarlöngu rafmagnsleysi, eins og sjá má í ummælakerfi HS Veitna á Fésbókinni, en þar greinir fólk frá því að rafmagnsleysið hafi meðal annars haft áhrif á eldamennsku og tölvuleikjaspilun. Þá þurfti að loka verslunum og eldsneytisafgreiðslu á Fitjum á meðan á rafmagnsleysinu stóð.