Nýjast á Local Suðurnes

Lionsmenn afhentu Grindavíkurbæ fyrsta eintak af sögu klúbbsins

Eiríkur Dagbjartsson, formaður Lionsklúbbs Grindavíkur, og Ástmar Kári Ástmarsson, formaður afmælisnefndar klúbbsins, afhenda Róberti Ragnarssyni bæjarstjóra bókina góðu.

Lionsklúbbur Grindavíkur fagnaði á vordögum 50 ára afmæli sínu. Í tilefni af þessum merku tímamótum var ákveðið að ráðast í bókaútgáfu þar sem saga klúbbsins síðastliðna hálfu öld var færð í letur. Bókin kom úr prentsmiðjunni núna rétt fyrir jólin og fékk Grindavíkurbær fyrsta eintak hennar afhent og veitti Róbert Ragnarsson bæjarstjóri því viðtöku á þorláksmessu.

Bókin er bæði vegleg og glæsileg, en hún telur 123 blaðsíður og hana prýða vel yfir 100 glæsilegar ljósmyndir sem margar hverjar hafa sjaldan eða aldrei sést opinberlega. Þá er sögu klúbbsins gerð rækilega skil í meginmáli en höfundur bókarinnar er jafnframt upplýsingafulltrúi Grindavíkurbæjar, Siggeir F. Ævarsson.

Bókin var prentuð í 400 eintökum og er eigulegur gripur, harðspjalda og prentuð á þykkan pappír þar sem ljósmyndasafnið nýtur sín vel. Bókin var seld í forsölu en þeir sem hafa áhuga á að næla sér í eintak geta nálgast bókina í Blómakoti þar sem hún verður til sölu.