Nýjast á Local Suðurnes

Vinna við menntastefnu Reykjanesbæjar stendur nú sem hæst

Stýrihópur menntastefnu fyrir Reykjanesbæ, sem samanstendur af fulltrúum hinna ýmsu hagsmunahópa vinnur nú að úrvinnslu íbúaþings, sem haldið var í Stapa fyrr í þessum mánuði. Að sögn Önnu Huldu Einarsdóttur grunnskólakennara og fulltrúa í stýrihópnum eiga niðurstöður þingsins eftir að koma að góðum notum við mótun menntastefnu. Stefnt er að því að ný menntastefna líti dagsins ljós með vorinu og að hún verði innleidd í haust.

Menntastefnan mun leysa af hólmi Skólastefnu Reykjanesbæjar sem er frá árinu 2001. Að sögn Helga Arnarsonar sviðsstjóra Fræðslusviðs varð hugtakið menntastefna fyrir valinu, m.a. í ljósi þess að sameinaðir voru tveir málaflokkar hjá bænum, fræðslumálin og íþrótta- og tómstundamálin.

„Skólastefna takmarkast oft við það hvernig haga skuli starfi skóla óháð því í hvernig umhverfi skólinn starfar. Nýrri menntastefnu er hins vegar ætlað að vera heildstæð áætlun um það hvernig nám á öllum skólastigum, leikur, listir og íþróttir fléttast saman og stuðlar sameiginlega að því að undirbúa unga fólkið okkar sem best undir það að verða virkir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi.“

Við framkvæmd íbúaþingsins var notuð aðferð heimskaffis, sem gengur út á að virkja þátttakendur þannig að skoðanir allra fái vægi, með léttu og þægilegu andrúmslofti.

„Á íbúaþinginu voru sex málefni til grundvallar, hvert málefni á tveimur borðum. Við hvert borð var svokallaður gestgjafi sem stýrði umræðum og hélt utan um niðurstöður. Hvert málefni var rætt í hálftíma, síðan gafst þinggestum tækifæri á að skipta um borð og ræða nýtt málefni. Sem sagt hver gestur tók þátt á tveimur borðum og að lokum drógu gestgjafar niðurstöður saman og kynntu fyrir gestum,“ segir Anna Hulda Einarsdóttir fulltrúi í stýrihópi.

Stýrihópurinn vinnur nú að samantekt og úrvinnslu niðurstaðna og er stefnunnar að vænta á vormánuðum.