Nýjast á Local Suðurnes

Íbúafundur um skipulagsmál í Reykjanesbæ á laugardag

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar stendur fyrir íbúaþingi um skipulags- og samgöngumál í Merkinesi, sal Hljómahallar laugardaginn 19. september. Þingið stendur frá kl. 14:00 til 16:00. Íbúaþingið er tilvalinn vettvangur fyrir bæjarbúa til að koma að ábendingum og  hugmyndum eða bara til að fylgjast með í málaflokkunum.

Vinna við endurskoðun Aðalskipulags Reykjanesbæjar er að hefjast og verður á þinginu farið yfir forsendur breytinga. Einnig verður farið yfir samgöngumál, m.a. almenningssamgöngur.

Miklar umræður hafa staðið yfir um breytingar á deiliskipulagi í Helguvík vegna fyrirhugaðrar uppbyggingu stóriðju á svæðinu. Íbúar hafi látið í ljós þá skoðun að fá að koma meira að ákvörðunartöku í svo stórum málaflokki. Rúmlega 25% íbúa Reykjanesbæjar skrifuðu undir áskorun til bæjaryfirvalda um að íbúakosning fari fram vegna breytinga á deiliskipulaginu og hefur bæjarráð falið bæjarstjóra að undirbúa íbúakosninguna.

Íbúaþingið á laugardag opnar fyrir þann möguleika að íbúar komi fyrr að ákvörðunartöku í skipulagsmálum.