Nýjast á Local Suðurnes

Leggja 10 milljónir króna í að bjarga minjum af varnarsvæðinu frá glötun

Mynd: Facebook/varnarliðið

Byggðasafn Reykjanesbæjar og Atvinnuþróunarfélagið Heklan í samstarfi við sveitarfélögin á Suðurnesjum munu næstu tvö árin leggja 10 milljónir króna í verkefni sem snýr að söfnun og skráningu minja af varnarsvæðinu og þróun millilandaflugs. Verkefnið er að hluta styrkt af Sóknaráætlun Suðurnesja.

Markmiðið með verkefninu er að bjarga minjum og heimildum frá glötun og vernda þannig menningararf sem er einstakur fyrir sögu Suðurnesja, en fátt ef nokkuð markar dýpri spor í sögu Suðurnesja á 20. öld en vera herliðs á Miðnesheiði í nær 80 ár, segir meðal annars í umsögn um verkefnið. Saga varnarliðsins er um leið saga alþjóðaflugvallar Íslendinga og helstu tengingar landsmanna við umheiminn. Þessi saga er margra hluta vegna merkileg og áhugaverð og að sjálfsögðu einstök fyrir þetta svæði, segir einnig í umsögninni.

Verkefnið er að því leytinu einstakt að gerð er heildaráætlun um faglega, skipulega og markvissa söfnun og varðveislu muna, mynda, skjala og frásagna sem tengjast sögu vararliðsins auk þess að skrá og mynd svæði og mannvirki.

Gert er ráð fyrir að vinna við verkefnið hefjist á þessu ári og ljúki á því næsta.