Nýjast á Local Suðurnes

Bjarni Gunnólfsson: “Tel að ég hafi loks öðlast þann þroska sem þarf til að vinna að góðum málefnum”

Hugmyndir Sigmundar Davíðs Gunnlagssonar, fyrrverandi forsætisráðerra og stofnanda Miðflokksins, varðandi kerfisbreytingar eru megin ástæðan fyrir því að Bjarni Gunnólfsson ákvað að ganga til liðs við flokkinn og fara í framboð fyrir komandi kosningar til Alþingis. Bjarni skipar fimmta sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi.

Bjarni sem er lærður framreiðslumaður og hótel og rekstrarfræðingur er giftur, þriggja barna faðir og segist ekki hafa langt að sækja áhugann á pólitíkinni, faðir hans hafi alla tíð tekið virkan þátt í starfi stjórnmálaflokks og málefnin hafi mikið verið rædd á heimilinu.

“Ég hef verið innan um pólitík alla mína ævi. Pabbi stóð í ströngu í pólitíkinni frá því að ég var smá patti og það var alltaf mikið rætt um pólitík á mínu æskuheimili. Pabbi vann til dæmis með mönnum eins og Vilmundi heitnum Gylfassyni.” Segir Bjarni í samtali við Suðurnes.net.

Bjarni segist hafa hrifist af áherslum Miðflokksins og stofnanda hans og telur því að nú sé rétti tíminn til að hoppa út í hina pólistísku djúpu laug.

“Ég hreifst mjög af kosningaáherslum Miðflokksins sem Sigmundur Davíð stofnaði á dögunum. Kosningaáherlsurnar eru því megin ástæðan fyrir því að ég fer í framboð á þessari stundu fyrir Miðflokkinn. Einnig þá tel ég að nú hafi ég loksins öðlast þann þroska sem þarf til að vinna að góðum málefnum.” Segir Bjarni, “mér finnst að það þurfi að gera róttækar breytingar á kerfinu. Ég tel að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Miðflokkurinn séu þau einu sem geti komið því til framkvæmdar og ég vil fá tækifæri til að taka þátt í þessum kerfisbreytingum sem Miðflokkurinn telur nauðsynlegar.”

Bjarni varð að lokum góðfúslega við beiðni um að svara nokkrum spurningum um sjálfan sig og má sjá svör hans hér fyrir neðan:

Nafn: Bjarni Gunnólfsson

Fæddur hvar og hvenær: Keflavík, 8.nóvember 1972.

Foreldrar: Gunnólfur Árnason og Fanney Bjarnadóttir

Systkini: Á þrjú yngri systkini Guðlaugur, Fannar Berg og Helga

Hjúskaparstaða og Börn: Giftur Elínu Arnardóttur og eigum við þrjú börn, Oliver Aron sem er fæddur 1997, Fanney Lovísu fædd 2001 og Róbert Örn fæddur 2011.

Heimili: Sunnubraut í Reykjanesbæ.

Menntun: Mátaði mig við píparann en tók aldrei sveinsprófið. Er Framreiðslumaður og nam síðar hótel og rekstrarfræði í Bandaríkjunum.

Atvinna: Umsjónarmaður hjá IGS á Keflavíkurflugvelli.

Áhugamál: Fjölskyldan, íþróttir, útivera og allt sem viðkemur rekstri, sérstaklega hótelrekstri.

Uppáhaldsmatur og Uppáhaldsdrykkur: Eins og margra Íslendinga, hamborgarhryggur í jólastíl. Held að uppáhaldsdrykkurinn minn sé Pepsi þessa stundina en það breytist oft hjá mér, stundum er það vatnið, stundum kaffi.

Uppáhaldsbók: Sú sem ég held mest uppá er án efa Leyndarmálið. Sú bók er mjög áhugaverð og með marga vinkla.

Uppáhaldstónlistarmaður og uppáhaldsbíómynd: Ég held uppá allskonar tónlist, allt frá þungarokki til danstónlistar. Annars þá er ég er alæta á góða tónlist, og sama er að segja um bíómyndir ég kýs helst að horfa á grín- og spennumyndir.

Eitt atriði sem fólk veit almennt ekki um þig: Ég er feiminn.

Ertu hjátrúarfullur: Á það til að vera hjátrúarfullur en breyti ekki lífinu vegna þessa.

Neyðarlegasta atvik: Ég veit ekki um neitt sérstak atvik. Ég lendi oft í einhverju neyðarlegu og er ekkert að leggja það sérstaklega  á minnið. Ef og þegar það gerist þá hlæ ég bara að því.

Hvaða persónu úr mannkynssögunni værir þú helst til í að drekka kaffi með: Ég væri til  í að drekka kaffi með Thomas Alva Edison til að geta lært eitthvað af þeim manni. Hann er einn áhugaverðasti uppfinningamaður sögunnar.

Lýstu þér í fimm orðum: Ef ég ætti að finna 5 orð um mig myndu þau vera, ósérhlífinn, duglegur, ævintýragjarn, góður og nokkuð snjall.

Hvað er ofmetið en vanmetið: Ytri áhrif eru ofmetin og eigin geta vanmetin.

Hvert myndirðu ferðast með tímavél: Með tímavél myndi ég skreppa í heimsókn til Edison og hjálpa honum með ljósaperuna og kannski fá mér kaffi með honum.

Ef þú mættir vera einhver annar í einn dag: Myndi aldrei vilja vera einhver annar en ég er. Ég er einstök mannvera sem hef hlotið þann heiður að fá að upplifa einhvern besta tíma mannkynssögunnar.

Bestu kaup sem þú hefur gert, en verstu: Bestu kaup mín eru án efa þak yfir höfuðið fyrir fjölskylduna. Verstu kaupin eru ekki til því það var allt til að læra af.

Lífsmottó: Komdu fram við aðra eins og þú vilt láta koma fram við þig.