Nýjast á Local Suðurnes

Frískápur á Ásbrú

Frískápur hefur verið opnaður við Hjálpræðisherinn að Ásbrú með það að megin markmiði að minnka matarsóun.

Á Facebook-síðu sem hefur verið sett upp í tengslum við verkefnið segir að öllum sé frjálst að taka mat og að allir mega skilja eftir mat í skápnum.

Ýmsar reglur gilda um frískapa, sem nú eru 11 talsins á landinu, en meginreglan er sú að það má ekki setja skemmdan mat (látið nefið ráða för) og ekki áfengi, segir á Facebook-síðunni, en þar má nálgast reglurnar í heild.

Frískápurinn spyr ekki um fjárhag, kyn, trú, þjóðfélagsstöðu eða kynþátt. ÖLL mega taka mat.

Í Reykjavík er nokkuð algengt að bakarí, kaffihús, skyndibitastaðir, hótel, airbnb fari með mat í skápana eftir lokun eða eftir brottför gesta. Einnig er tilvalið fyrir alla að fara með mat eftir veislur, segir á síðunni.