Nýjast á Local Suðurnes

Starfsfólk Creditinfo styrkti Minningarsjóð Ölla

Minningarsjóður Ölla hlaut samtals 613.600 króna í styrk úr árlegri góðgerðarsöfnun starfsfólks Creditinfo. Jane María og Andrea Vigdís Elvarsdætur tóku á móti söfnunarfénu sem sendiherrar sjóðsins en þær eru bróðurdætur Ölla.

Undanfarin ár hefur Creditinfo valið að senda ekki út jólakort, en leggja þess í stað starfsfólki fyrirtækisins lið við söfnun sem óskipt er látin renna til verðugs málefnis. Í þetta sinn var Minningarsjóður Ölla fyrir valinu en sjóðurinn hefur um árabil stutt við íþróttaiðkun barna sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna.

„Við hjá Minningarsjóði Ölla erum ákaflega þakklát Creditinfo og starfsmönnum fyrirtækisins fyrir þennan ómetanlega styrk sem á eftir að veita von hjá mörgum börnum sem minna mega sín. Á tímum heimsfaraldurs þegar íþróttir hafa sennilega aldrei verið eins mikilvægar, veitir stuðningur við sjóðinn honum byr undir báða vængi, vekur á honum athygli og ekki síst athygli þeirra sem á honum þurfa að halda. Öll börn á Íslandi eiga að fá að stunda íþróttir áhyggjulaus og láta drauma sína rætast. Kærar þakkir fyrir okkur,” segir María Rut Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Minningarsjóðs Ölla.

Ýmsar leiðir hafa verið farnar við góðgerðarsöfnunina síðastliðin ár en að þessu sinni kom meginþorri söfnunarfésins frá góðgerðarbingói starfsmanna Creditinfo  sem starfsmannafélag Creditinfo stóð fyrir og starfsmenn söfnuðu vinningum fyrir. Fjölmörg fyrirtæki lögðu söfnuninni lið og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir þeirra framlag. Að venju lagði svo Creditinfo fram sem mótframlag jafnháa upphæð og safnaðist meðal starfsfólks.

„Minningarsjóður Ölla er einstakt framtak og var mikil samstaða meðal starfsmanna Creditinfo þegar kom að vali á góðgerðarmálefni fyrir þessi jól. Ég vil nota tækifærið og þakka velunnurum okkar fyrir þeirra stuðning en þau fyrirtæki sem við leituðum til með vinninga tóku okkur sérstaklega vel og gerðu okkur kleift að halda góðargerðarbingó sem sómi var að. Ég fyrir hönd okkar hjá Creditinfo óska forsvarsmönnum sjóðsins góðs gengis í þeirra mikilvægum störfum,“ segir Hrefna Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo.