Nýjast á Local Suðurnes

Eignir á Ásbrú á fárra höndum – Framtíð Kadeco óráðin

Tæplega 40 aðilar, eða fyrirtæki, keyptu þær íbúðir sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, hefur selt á undanförnum 10 árum. Um er að ræða um 200.000 fermetra af íbúðarhúsnæði eða 2.000 íbúðir. Stærstu kaupendurnir í þessum hópi eru Íslenskar fasteignir ehf. sem keypti um 470 íbúðir og stærsta leigufélag landsins, Heimavellir, sem eignaðist 716 íbúðir á Ásbrú með kaupum á leigufélaginu Ásabyggð, sem var í eigu Kadeco.

Samtals reka þessi tvö leigufélög því um 1.200 íbúðir af þeim tvö þúsund sem seldar voru á varnarsvæðinu. Aðrir stórir kaupendur voru meðal annars flugþjónustufyrirtækin Airport Associates og IGS, dótturfélag Icelandair, sem leigja íbúðirnar út til erlendra verkamanna.

Fermetraverð á pari við verð á blokkaríbúð í Síberíu

Suðurnes.net hefur áður fjallað um lágt söluverð eigna á gamla varnarsvæðinu, en heildarsöluverðmæti þeirra eigna sem Kadeco hefur selt er tæplega 18 milljarðar króna, um er að ræða tæplega 350.000 fermetra og er söluverðið því rétt rúmar 50.000 krónur á fermeter. Til samanburðar má geta þess að samkvæmt upplýsingum frá fasteignasölum er algengt fermetraverð á íbúð í fjölbýlishúsi í Reykjanesbæ um þessar mundir er um og yfir 200.000 krónur og á atvinnuhúsnæði í þokkalegu standi yfir 100.000 krónur. Rétt er að taka fram að íbúðaverð var lægra á svæðinu þegar sölur Kadeco fóru fram.

Þá má til gamans geta þess að mögulegt er að festa kaup á blokkaríbúð í Síberíu á um 48.000 krónur per fermeter, en lítil eftirspurn er eftir íbúðum á því svæði um þessar mundir, samkvæmt erlendum fasteignavefjum.

Stjórnendur Kadeco eru þó himinlifandi með árangurinn sem náðst hefur, en Fréttatíminn hafði eftir Kjartani Eiríkssyni framkvæmdarstjóra þróunarfélagsins að enginn annar aðili hafi haft áhuga á að kaupa þessar eignir í einum pakka, undir lok síðasta árs.

“Við gáfum kaupendunum möguleika á því að ákveða sjálfir hversu margar eignir þeir byðu í. Þetta voru einu aðilarnir sem buðu í svona margar eignir. Þetta var ekki eignapakki sem var rammaður inn.“ Sagði Kjartan eftir að Íslenskar fasteignir höfðu fest kaup á 470 íbúðum á svæðinu.

Fákeppni og hækkandi leiguverð

Óhætt er að segja að eftir að þessir aðilar keyptu upp íbúðir og leigufélög á Suðurnesjum ríki nokkur fákeppni á leigumarkaði á svæðinu, en rétt er að geta þess að Heimavellir festu einnig kaup á leigufélaginu Tjarnarverki á svipuðum tíma og gengið var frá kaupum á Ásabyggð. Tjarnarverk átti  yfir 100 íbúðir á Suðurnesjum.

Athygli vakti að Heimavellir hækkuðu leiguverð til viðskiptavina sinna nokkrum dögum eftir að samningar um kaup á Ásabyggð höfðu verið undirritaðir, í október 2016. Leigjendur hjá Heimavöllum sem Suðurnes.net ræddi við segja hækkunina hafa verið um 10 – 20.000 krónur á mánuði, eftir stærð á íbúðum.

Söluhagnaður ekki notaður á Suðurnesjum – Framtíð Kadeco óráðin

Þrátt fyrir að söluverð eigna á varnarsvæðinu hafi verið lágt þá hafa allar greiðslur vegna þeirra runnið í ríkissjóð eða tæplega 18 milljarðar króna, þessir fjármunir verða ekki notaðir í uppbyggingu á Suðurnesjum, samkvæmt svari Benedikts Jóhannessonar, fjármálaráðherra, við fyrirspurn Silju Daggar Gunnarsdóttur alþingismanns, um málefni Kadeco, á dögunum.

“Til þess að svara fyrirspurn hv. þingmanns þá hafa allar greiðslur vegna sölu eigna á svæði C [Innsk. blm.: sá hluti fyrrum varnarsvæðisins sem er utan flugverndargirðingarinnar] runnið til ríkissjóðs og munu gera það áfram. Það er í samræmi við meðferð söluandvirðis allra annarra eigna ríkisins um allt land. Ég mun ekki beita mér fyrir því að gera undanþágu frá þessari reglu í þessu tilviki.” Sagði fjármálaráðherra.

Silja Dögg spurði fjármálaráðherra einnig hvort tími væri kominn til að leggja þróunarfélagið niður, enda hefur nær allt húsnæði á forræði þess verið selt. Í svari fjármálaráðherra við þeirri spurningu kom fram að hann hafi ekki mótað sér stefnu um framtíð Kadeco, en hann stefnir á að funda með forsvarsmönnum fyrirtækisins á næstunni.

“…ég hef verið með í undirbúningi fund með Kadeco en hef ekki mótað mér stefnu um framtíð félagsins.” Sagði fjármálaráðherra, “…það er búið að vera á dagskrá hjá mér býsna lengi að fara og heimsækja fyrirtækið. Það hefur bara af ýmsum ástæðum ekki fundist tími. Þetta hefur verið sveigjanlegur fundartími sem hefur færst til í dagskrá minni. Vonandi tekst mér innan tíðar að koma þangað og ég hlakka mikið til þess fundar.”

Framtíð þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, er því óráðin, en forsvarsmenn fyrirtækisins hafa lýst því yfir að þeir séu reiðubúnir að starfa áfram að þróunarverkefnum á svæðinu.