Nýjast á Local Suðurnes

Kadeco setur 4.300 fermetra fasteign gjaldþrota hugbúnaðarfyrirtækis í söluferli

Gagnageymsla Azazo á Ásbrú

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, yfirtók á dögunum fasteignina Grænásbraut 720 sem var í eigu hugbúnaðarfyrirtækisins Azazo (áður Gagnavarslan,) en fyrirtækið fór í þrot undir lok síðasta árs. Fasteignin hefur verið sett í söluferli og verða tilboð í eignina opnuð þann 20. mars næstkomandi.

Marta Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Kadeco sagði í svari við fyrirspurn Suðurnes.net að ákvörðun um yfirtöku eignarinnar hafi verið tekin í samráði við skiptastjóra þrotabúsins þar sem eignin hafi ekki verið að fullu greidd. Þá sagði Marta að þessi kostur hafi verið talinn betri í stöðunni en nauðungarsala.

Unnt verður að bjóða í eignina útfrá tveimur mismunandi lóðarstærðum, annars vegar miðað við núverandi lóðarréttindi sem eru tæplega 32 þúsund fermetrar eða minnkuð lóðarréttindi sem verða rúmlega 17 fermetrar, segir í auglýsingu á vef Kadeco. Eignin verður sýnd miðvikudagana 7. og 14. mars á milli kl. 13 og 14. Tilboðum í eignina skal skila fyrir klukkan 11, þriðjudaginn 20. mars á skrifstofu Kadeco í lokuðu umslagi. Tilboð verða opnuð samtímis kl. 11.10 sama dag.