VSFK lánar fyrir launum
Stjórn Verkalýðs-og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis hefur ákveðið og samþykkt að aðstoða sína félagsmenn, sem störfuðu hjá WOW air, vegna launagreiðslna þessi mánaðarmót. Þetta staðfestir Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður félagsins, við mbl.is.
„Við ætlum að feta í fótspor félaga okkar hjá VR og fara sömu leið, að kaupa kröfuna fyrir laununum í mars af starfsmönnunum,“ segir Guðbjörg.
Um er að ræða 25-30 félagsmenn VSFK sem voru í starfi hjá WOW. Fundur verður haldinn með umræddum starfsmönnum hjá félaginu í Krossmóa 4 á mánudaginn klukkan 16.