Nýjast á Local Suðurnes

Landsmótsgestir hafa verið áberandi í Grindavík

Landsmót unglingadeilda Slysavarnafélagsins Landsbjargar er nú í fullum gangi í Grindavík og er búið að slá upp gríðar stórri tjaldborg á rollutúninu við Austurveg þar sem um 400 ungmenni eiga sínar bækistöðvar næstu daga og fram á sunnudag. Ungmennin hafa margt fyrir stafni á meðan á landsmótinu stendur og hafa verið áberandi út um allan bæ.

landsmot landsbjorg7

Það er mikið fjör á Landsmóti unglingadeilda Landsbjargar.

Þessi pistill frá Otta Rafni Sigmarssyni, umsjónarmanni unglingadeildarinnar hjá björgunarsveitinni Þorbirni, var birtur á heimasíðu Grindavíkurbæjar:

„Landsmót unglingadeilda Slysavarnafélagsins Landsbjargar hefur trúlega ekki farið framhjá neinum sem ekur eða gengur um götur Grindavíkur enda iðar allt af lífi. Þátttakendur á mótinu koma frá öllum landshlutum og telja tæplega 400 einstaklinga sem öllum hefur verið skipt upp í níu hópa. Hver hópur fer svo á milli stöðva þar sem annarsvegar eru æfð ýmis handtök sem tengjast björgunarmálum eins og bjargsig, klifur, meðferð báta og fyrstahjálp og hinsvegar stöðvar þar sem keppt er í ýmsum greinum eins og stórsekkjahlaupi, björgunarbátatroðningi og kassahlaupi. Mótsgestir hafa verið gríðarlega heppnir með veður en árið 1997 þegar svona mót var haldið í Grindavík síðast þurfti að pakka saman öllum tjöldum og flytja allt fólkið í gistingu í íþróttahúsinu vegna fárveðurs og úrkomu.

Ekki nóg með það að þurfa bæði að æfa sig og keppa í þrautum þá þurfa þátttakendur auðvitað að næra sig á milli og þar kemur Slysavarnadeildin Þórkatla sterk inn en þær slysavarnakonur hafa staðið vaktina í Hópsskóla undanfarið þar sem allir mótsgestir fá heitan hádegismat. Þeir sem þekkja til vita að það er ekkert grín að gefa svona mörgum að borða í einu, hvað þá hungruðum unglingum sem vilja helst ekkert stoppa.

lands1 landsbjorg

Það er búið að slá upp gríðar stórri tjaldborg á rollutúninu við Austurveg

Klósettpappírssölukeppnin er trúlega sá liður mótsins sem flestir hafa tekið eftir en í þeirri keppni keppast unglingarnir við að fá sem mestan pening fyrir einn pakka af klósettrúllum en þessir krakkar hafa verið áberandi í kringum Nettó og verslunarmiðstöðina. Allur ágóði sölunnar verður svo gefinn til góðgerðarmála í nafni Landsmóts unglingadeilda í Grindavík.

Á kvöldin fara fram öðruvísi skemmtanir og í gær var farið með alla gesti mótsins í skemmtisiglingu að Grindvískum hætti sem þótti heppnast mjög vel. Að siglingunni lokinni mætti svo þyrla Landhelgisgæslunnar og tók smá æfingu í höfninni á meðan að krakkarnir fylgdust með. Í kvöld fer svo fram spurningakeppni unglingadeildanna og svo kallaðir umsjónarmannaleikar en þar er keppt í sjö mismunandi minute to win it þrautum.“