Nýjast á Local Suðurnes

Loka Pósthúsinu – Svona verður þetta!

Um miðjan janúar 2023 eru fyrirhugaðar breytingar á póstþjónustu á nokkrum stöðum á landinu, þar á meðal í Grindavík. Pósthúsinu í Grindavík verður lokað og þess í stað lagður meiri þungi á aðrar þjónustulausnir, segir í tilkynningu frá Póstinum.

Tilkynningin í heild:

Við hjá Póstinum leitum stöðugt leiða til að bæta og þróa þjónustuna okkar í takt við breyttar þarfir á markaðnum. Það skiptir okkur máli að bjóða upp á þétt dreifinet sendingarmöguleika til að vera sem næst þér kæri viðskiptavinur.  

Starfsemi Póstsins á öllu landinu er margþætt og er rekstur pósthúsa einn þáttur starfseminnar. Á síðustu árum hefur póstþjónusta á Íslandi tekið stórfelldum breytingum en sem dæmi má nefna að frá árinu 2010 hefur fjöldi bréfasendinga dregist saman um 74% en á sama tíma hafa pakkasendingar margfaldast. Verulega hefur dregið úr eftirspurn eftir afgreiðsluþjónustu pósthúsa en notkun annarra þjónustulausna fer sívaxandi.  

Um miðjan janúar 2023 eru fyrirhugaðar breytingar á póstþjónustu í Grindavík, á Skagaströnd og Kópaskeri. Til stendur að loka pósthúsunum á þessum stöðum en leggja þess í stað meiri þunga á aðrar þjónustulausnir. Pósturinn er því ekki að fara neitt og við ætlum að halda áfram að veita góða þjónustu á þessum svæðum. Á sama tíma skiljum við að breytingar líkt og þessar geta reynst erfiðar og þess vegna viljum við upplýsa þig tímanlega og svara öllum helstu spurningum sem gætu vaknað. Við munum áfram vera til staðar og aðstoða þig við að aðlagast breyttri þjónustu og þér er alltaf velkomið að hafa samband við þjónustuver Póstsins í síma 580 1000 eða á netspjallinu við köttinn Njál hér á posturinn.is  

Hér höfum við tekið saman svör við helstu spurningum vegna þessara breytinga ásamt upplýsingum um póstþjónustulausnir sem þú munt geta nýtt þér. 

Þarf ég að breyta einhverju? 

Við mælum með því að þú skráir þig á  mínar síður eða í appið ef þú hefur ekki gert það nú þegar. 

Hvernig fæ ég bréfapóstinn minn?

Fræknu bréfberarnir og landpóstarnir okkar munu halda áfram að koma bréfunum þínum til skila tvisvar í viku.  

Hvernig sendi ég bréf? 

Það verður áfram greið leið fyrir þig að senda bréf, hvort sem það eru ástarbréf, jólakort eða eitthvað annað tilefni. Það eina sem þú þarft að gera er að setja frímerki á bréfið og skila því í næsta póstkassa sem verður staðsettur á svæðinu. Það verður hægt að kaupa frímerki bæði hjá endursöluaðila á svæðinu og einnig í netverslun okkar. Við erum ennþá að skoða hvar við munum selja frímerki og leita að góðri staðsetningu fyrir póstkassa en munum upplýsa þig um leið og það liggur fyrir. 

Hvað með pakkasendingar?

Þú getur valið að sækja og senda pakkana þína með póstboxi eða póstbílnum. Pakkar eru keyrðir út alla virka daga í þéttbýli og landpóstarnir keyra pakka tvisvar í viku í nærliggjandi sveitir. 

Póstboxum verður komið fyrir á öllum svæðum en það er einmittsú þjónustulausn sem nýtur mestra vinsælda hjá viðskiptavinum okkar.  Póstbox eru sjálfsafgreiðslukassar þar sem bæði er hægt að sækja og senda pakka. Staðsetning póstboxa á öllum stöðum verður auglýst síðar. 

  • Póstboxin eru opin allan sólarhringinn svo þú getur sótt eða sent pakka, hvenær sem þér hentar. 
  • Þú getur skráð þig í póstbox á mínum síðum
  • Til að senda með póstboxi þarftu að skrá sendinguna fyrirfram og skrá kreditkortið þitt á mínum síðum hér á posturinn.is.  
  • Eitt það besta við póstboxin er hvað það er auðvelt að fá einhvern annan til að sækja sendingar fyrir þig. Það eina sem þú þarft að gera er að áframsenda staðfestingarskilaboðin sem þú færð í SMS-ið eða tölvupósti. 

Póstbíllinn verður reglulega á ferðinni á öllum stöðum. Hann tekur á móti sendingum sem passa ekki í póstbox. Þú einfaldlega slærð á þráðinn til bílstjóranna okkar sem koma og sækja pakkann til þín, endurgjaldslaust. Símanúmer póstbílsins verður auglýst síðar. 

Póstbíllinn sér einnig um heimsendingar fyrir þá sem vilja hafa það huggulegt heima hjá sér eða bara auðvelda sér lífið með því að fá sendingar beint upp að dyrum. Ef  þú missir af heimsendingu geturðu haft samband við póstbílinn eða þjónustuverið og beðið okkur um að koma aftur með sendinguna þína þegar þér hentar.  

Hvar lenda sendingarnar mínar eftir að pósthusinu verður lokað?

Ef þú ert með valið að fá sendingarnar þínar á pósthúsið verður þú sjálfkrafa skráð/ur í næsta póstbox. Þú getur alltaf valið og breytt því hvernig þú vilt sækja sendingar eftir því hvað hentar þér best inni á mínum síðum. 

Hvar verður næsta pósthús? 

Þjónustupósthús Grindavíkur verður pósthúsið í Reykjanesbæ, þjónustupósthús Skagastrandar verður pósthúsið á Blönduósi og þjónustupósthús Kópaskers verður pósthúsið á Húsavík.  

Ef sendingin þín kemst einhverra hluta vegna ekki til skila og lendir á næsta pósthúsi þá er alltaf í boði að hafa samband við okkur til að koma með pakkann þinn aftur, endurgjaldlaust. Þú gerir það með því að bjalla í póstbílinn eða þjónustuver í síma 580 1000. Einnig er alltaf hægt að heyra í Njáli á netspjallinu hér á posturinn.is  

Þarftu kvittun?

Hægt er að nálgast kvittanir á mínum síðum. Þú getur líka óskað eftir kvittun með símtali eða tölvupósti. 

Hver verða svo næstu skref?

Íbúum á svæðinu verða send dreifibréf með frekari upplýsingum um breytingarnar þegar nær dregur. Ef einhverjar spurningar vakna er alltaf velkomið að hafa samband við þjónustuver í síma 580 1000 eða við köttinn Njál hér á netspjallinu.