Búast við milljón gestum á næsta ári í Bláa lónið – Lokað í tvær vikur í janúar

Vinsælasti frðamannastaður landsins, Bláa Lónið, verður lokað gestum í tvær vikur á nýju ári, frá 5. til og með 21. janúar vegna framkvæmda við stækkun og endurhönnun upplifunarsvæðis. Veitingastaðir og verslun Bláa Lónsins verða einnig lokuð á tímabilinu. Þetta er í fyrsta skipti frá árinu 1999 sem Bláa loninu er lokað vegna framkvæmda.
Dagana sem lokað verður býðst fólki hinsvegar að bóka Betri stofu aðgang í lónið og verður þá tekið á móti gestum í lóni Lækningalindar þar sem einnig verður boðið uppá verslun og veitingaþjónustu.
Framkvæmdin er hluti af stækkun vegna uppbyggingar lúxushótels sem opnað verður árið 2017. Hótelið verður eitt af fyrstu fimm stjörnu hótelum landsins og er markhópurinn betur borgandi ferðamenn.
Eðli málsins samkvæmt verður því allur útbúnaður í hæsta klassa. Herbergin verða rúmlega sextíu talsins og þar á meðal nokkrar svítur, sagði Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa lónsíns í samtali við mbl.is fyrr á þessu ári. Grímur sagði einnig að hótelið komi til með að standast allan alþjóðlegan samanburð og telur að Bláa lónið muni öðlast enn sterkari stöðu á heimsvísu.
Þá ítrekaði Grímur að nýja hótelið muni falla vel að umhverfinu en byggingarreiturinn er þröngur þar sem reynt var að skerða hraunið ekki meira en bráð nauðsyn stóð til. Heildarkostnaður vegna framkvæmdanna nemur um sex milljörðum króna.
1.000.000 gestir þrátt fyrir lokun
Þó svo að lónið verði stækkað jafn mikið og raun ber vitni mun það þó ekki þýða að fleiri gestir geti heimsótt það í einu. Til þess þarf að stækka búningaaðstöðuna en það er ekki á dagskránni fyrr en í næsta áfanga framkvæmdanna. Búast má við því að honum ljúki árið 2017.
Að sögn Gríms er búist við að rúmlega milljón gestir heimsæki Bláa lónið á næsta ári, þrátt fyrir fyrrnefnda lokun. Um 900 þúsund manns sóttu lónið í ár og var yfirgnæfandi meirihluti erlendir ferðamenn.