Nýjast á Local Suðurnes

Starfsmaður BaseParking kærður til lögreglu – Hótaði starfsmanni Isavia líkamsmeiðingum

Starfsmaður Isavia hefur kært starfsmann bílastæðaþjónustu BaseParking til lögreglu vegna hótana um líkamsmeiðingar. Miklar deilur hafa staðið yfir á milli fyrirtækjanna tveggja undanfarin misseri vegna bílastæðamála á Keflavíkurflugvelli, en BaseParking rekur svokallaða valet bílastæðaþjónustu á keflavíkurflugvelli, þar sem bifreiðar ferðalanga eru sóttar á flugvöllinn og geymdar á svæði fyrirtækisins á Ásbrú.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, staðfesti að kæra vegna hótana um líkamsmeiðingar væri komin til lögreglu frá starfsmanni fyrirtækisins, en vildi að öðru leiti ekki tjá sig um málið.

Ómar Þröstur Hjaltason, framkvæmdastjóri BaseParking, hafði ekki heyrt af málinu þegar óskað var eftir svörum frá honum varðandi atvikið sem um ræðir.

Samkvæmt heimildum Suðurnes.net hefur áður þurft að kalla til lögreglu vegna deilu fyrirtækjanna, en það var gert þegar starfsmenn Isavia hleyptu starfsmönnum BaseParking ekki út af bílastæðum fyrirtækisins á Keflavíkurflugvelli með bíla viðskiptavina fyrirtækisins.