Nýjast á Local Suðurnes

Lagt til að hámarkshraði verði lækkaður á hluta Reykjanesbrautar

Vegagerðin leggur til að hámarkshraðinn á Reykjanesbraut verði lækkaður úr 90 km í 80 km á klukkustund á þeim kafla brautarinnar, sem ekki er tvöfaldaður, frá Hvassahrauni að Kaldárselsvegi. Tillaga Vegagerðarinnar kemur fram vegna fjölgunar alvarlegra slysa á þeim slóðum.

Að auki leggur Vegagerðin til að upp verði settar greinilegri varúðarmerkingar um að vegfarendur sem koma frá Suðurnesjum séu komnir inn á tvístefnuveg. Þetta kemur fram í bréfi Vegagerðarinnar til Hafnarfjarðarbæjar, þar sem óskað var eftir umsögn sveitarfélagsins og lögreglu.

Erindið var lagt fram í tengslum við skipan samráðshóp Vegagerðarðinnar og Hafnarfjarðarbæjar um að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar í gegnum bæinn. Rósa Guðbjartsdóttir formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar segir að embættismenn báðum megin skipi hópinn og tilgangurinn sé að vinna að tillögum um að ljúka tvöfölduninni. Þær tillögur verði svo notaðar til að þrýsta á fjármagn frá ríkinu til að ljúka henni.

Meirihluti ökumanna ekur yfir hámarkshraða

Vegagerðin býður upp á ýmsa skemmtilega tölfræði á vef sínum og á meðal þess sem hægt er að fylgjast með eru umferðargreinar Vegagerðarinnar, en þar má meðal annars fylgjast með hraða bifreiða og sjá bil á milli bíla á hinum ýmsu stöðum um landið, nánast í rauntíma.

Séu þessar tölur skoðaðar má sjá að flestir aka yfir leyfilegum hámarkshraða á Reykjanesbraut og á Hellisheiði, en nærri má láta að rúmlega 6.000 af þeim tæplega 12.000 ökumönnum sem óku um Reykjanesbraut í gær hafi ekið yfir leyfilegum hámarkshraða, flestir á 100-110 km hraða, en nokkuð margir á yfir 120 km. hraða á klukkustund.

Áhugasamir geta fundið umferðagreini Vegagerðarinnar hér.