Nýjast á Local Suðurnes

Jafnt hjá Keflavík og Leikni í baráttuleik

Það var boðið uppá alvöru baráttuleik í Breiðholtinu þegar neðsta lið Pepsí-deildarinnar, Keflavík sótti Leikni heim í kvöld.

Keflvíkingar komust yfir á sjöttu mínútu þegar Magnús Mattíasson skallaði knettinum í netið eftir fína fyrirgjöf frá Sigurbergi Elíssyni. Leiknismenn jöfnuðu svo leikinn á 30. mínútu. Mikil barátta einkenndi svo síðari hálfleikinn en hvorugu liðinu tókst að skora – Lokatölur urðu því 1-1 sem verða að teljast sanngjörn úrslit.

Keflvíkingar eru enn á botni deildarinnar, nú með fimm stig eftir 11 leiki. Liðið á næst leik á útvelli þann 19. júlí gegn Víkingum sem einnig eru í neðri hluta deildarinnar.