Nýjast á Local Suðurnes

Fiskivagninn verður á Fitjum um ókomna tíð – “Girðum í brók og höldum áfram inn í veturinn.”

Issi Fish & Chips hefur fengið úthlutað lóð á Fitjum í Njarðvík undir starfsemi veitingavagns, en fyrirtækið sótti um lóðina á dögunum. Þá er Issi Fish & Chips einnig kominn með aðstöðu í Leiru og mun taka við veitingaþjónustu þar næsta sumar.

Frá þessu greinir Issi á Fésbókarsíðu sinni og um leið og hann þakkar starfsfólki og viðskiptavinum fyrir aðstoðina og traustið segir hann skemmtilega tíma vera framundan.

“Skemmtilegir tímar framundan, er kominn með lóð á Fitjum og verð því þar um ókomna tíð.

Því meira sem ég fæ af hrósi og finn fyrir almennri ánægju með það sem ég er að gera fyllist ég stolti og auðmýkt.
Ég er einnig þakklátur fyrir starfsfólkið sem er að standa vaktina, án þeirra væri þessi draumur minn ekki til. Ásamt öllum þeim aðilum sem hjálpað hafa þessu litla fyrirtæki okkar Hjördísar að eiga möguleika á að vaxa og dafna með aðstöðu og ómetanlegum ráðleggingum. Því til að standast kröfur kúnnahópsins þarf að girða í brók og halda áfram inn í veturinn.” Segir á Facebook-síðu Issa.