Nýjast á Local Suðurnes

Uppfylla ekki öll skilyrði eftirlitsnefndar og auglýsa stöðu fjármálastjóra

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) hefur yfirfarið fjárhagsáætlun ársins 2023 hjá Sveitarfélaginu Vogum og er það niðurstaða nefndarinnar að sveitarfélagið uppfyllir ekki öll lágmarksviðmið eftirlitsnefndar fyrir A-hluta, en áætluð rekstrarniðurstaða er neikvæð og framlegð undir lágmarksviðmiði.

Þrátt fyrir bráðbirgðaákvæði VII í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 þar sem sveitarstjórn er
heimilt að víkja frá skilyrðum um jafnvægisreglu og skuldareglu út árið 2025 vill EFS benda sveitarstjórn á að árið 2026 þarf að uppfylla framangreind skilyrði, segir í fundargerð bæjarstjórnar um málið.

Sveitarfélagið hefur auglýsir laust til umsóknar starf sviðsstjóra fjármála og stjórnsýslusviðs. Samkvæmt auglýsingu er leitast eftir öflugum leiðtoga til að leiða áfram þau verkefni sem fram undan eru á sviðinu.

Þá segir að sviðsstjóri fjármála og stjórnsýslusviðs beri ábyrgð á daglegri fjármálastjórn sveitarfélagsins og stýringu sviðsins. Undir sviðið heyrir m.a. reikningshald, fjárreiður og launavinnsla ásamt fjölskyldu- og menningarmálum. Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs heyrir beint undir bæjarstjóra og er staðgengill hans.