Ásmundur sáttur: ” Vinabönd eru slitin en vonandi gróa þau með tímanum”
Ásmundur Friðriksson hafnaði í öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðiflokksins í Suðurkjöræmi fyrir alþingiskosningarnar sem fram fara þann 29. október næstkomandi. Hann er sáttur við niðurstöðuna og þakklátur þeim sem studdu hann í prófkjörinu.
Þetta kemur fram á Facebook-síðu Ásmundar, en þar óskar hann Páli Magnússyni til hamingju með árangurinn, en hann lenti sem kunnugt er í efsta sæti listans og mun leiða flokkinn í kjördæminu fyrir kosningarnar.
“Ég vil óska Páli Magnússyni til hamingju með glæsilegan kosningasigur í Suðurkjördæmi og velfarnaðar við að leiða listann. Þakka meðframbjóðendum mínum samstarfið og óska þeim góðs gengis.
Pólitík er er spurning um stöðu og áhrif þar sem enginn á neitt. Eðlilega verða skiptar skoðanir um niðurstöðuna en í enda dagsins verður mikilvægast fyrir Suðurkjördæmi að leggja fram þann lista sem er sigurstranglegastur í kosningunum í haust.” Segir Ásmundur meðal annars á Facebook-síðu sinni.
Þrátt fyrir þakklætið segir Ásmundur prófkjör taka á, enda geti grimmdin sem fylgir prófkjörum farið út fyrir öll mörk og vinabönd slitnað.
“Það er aðeins einn sem getur sigrað og fáir komist í örugg sæti á listum. Þeir sem eftir sitja sleikja sárin. Grimmdin getur farið út fyrir öll mörk og vinabönd eru slitin en vonandi gróa þau með tímanum. Ég er þakklátur fólkinu mínu fyrir stuðninginn, fólkinu sem gaf mér atkvæði og fólki fólkinu sem hjálpaði mér við alla vinnuna. Ég er þakklátur fyrir niðurstöðuna og það traust sem mér er sýnt.” Segir Ásmundur.