Nýjast á Local Suðurnes

Auglýsa starfsleyfistillögu fyrir Thorsil – Athugasemdafrestur er til 2. janúar

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir Thorsil ehf. til að að framleiða í fjórum ljósbogaofnum allt að 110.000 tonnum á ári af hrákísli og allt að 55.000 tonnum af kísildufti og 9.000 tonnum af kísilgjalli. Reksturinn á að fara fram í Helguvík, nánar tiltekið á lóðinni Berghólabraut 8 í Reykjanesbæ.

Tillaga að starfsleyfi er auglýst á ný vegna úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 27. október 2016 þar sem felld var úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 11. september 2015 um að veita Thorsil ehf. starfsleyfi fyrir rekstri kísilverksmiðju á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Tillaga að starfsleyfi fyrir ofangreinda starfsemi var auglýst á síðasta ári.

Starfsleyfistillagan er nú auglýst á tímabilinu 3.nóvember 2016 til 2. janúar 2017. Hér að neðan má finna auglýsta tillögu Umhverfisstofnunar, drög að vöktunaráætlun og umsóknargögnin. Einnig er að finna matsskýrslu vegna starfseminnar sem skilað var til Skipulagsstofnunar og álit hennar. Að auki er að finna ítarleg gögn um frekari dreifingu loftmengunar sem Umhverfisstofnun fór fram á við Thorsil ehf. þegar unnið var að tillögunni. Einnig er sérstaklega gerð grein fyrir afstöðu Umhverfisstofnunar til mats á umhverfisáhrifum starfseminnar. Að öðru leyti liggja sömu gögn til grundvallar auglýsingunni.

Þegar tillaga að starfsleyfi var auglýst í fyrra sinn stóð Umhverfisstofnun fyrir kynningarfundi í Duushúsi í Reykjanesbæ þann 24. júní 2015. Að auki tók Umhverfisstofnun þátt í opnum íbúafundi um deiliskipulag í Helguvík á vegum sveitarfélagsins þann 29. apríl 2015. Ekki er því fyrirhugað að halda kynningarfund um tillöguna nema stofnuninni berist ósk þar um..

Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 2. janúar 2017.

Tengd gögn