Nýjast á Local Suðurnes

Hagnaður Bláa lónsins rúmir 2 milljarðar – Seldu 115.236 lítra af bjór á síðasta ári

Heildarvelta Bláa lónsins nam rétt tæplega 8 milljörðum króna á síðasta ári og hagnaður fyrirtækisins eftir skatta var tæplega 2,4 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins er 53% og handbært fé frá rekstri er rétt rúmir 3,6 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2015. Grímur Sæmundsen, forstjóri fyrirtækisins segir framtíðina vera bjarta og að spennandi tímar séu framundan í ferðaþjónustunni.

“Starfsemi Bláa Lónsins hélt áfram að vaxa og dafna á árinu 2015. Vöxtur hefur haldið áfram á öllum sviðum fyrirtækisins og markvisst hefur verið unnið að því að styrkja rekstrarlega innviði, m.a. mannauð, en yfir 500 manns munu starfa hjá félaginu nú í sumar.” Segir Grímur.

Bláa lónið fer frumlegar leiðir í birtingu ársreikningsins að þessu sinni, en hann er birtur á netinu. Í ársreikningnum er að finna ýmsar skemmtilegar tölur úr rekstri síðasta árs, en til að mynda voru seldir 115.236 lítrar af bjór, 312.496 Seldir sushi bitar og 168.148 kaffibollar árið 2015. Þá voru heilsudrykkir einnig vinsælir á síðasta ári, en fyrirtækið seldi hvorki meira né minna en 133.121 Boozt drykki árið 2015.