Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanesbær skipar starfshóp um hönnun á nýjum grunnskóla í Dalshverfi

Samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar, sem gildir til ársins 2022, áætlar sveitarfélagið að hefja byggingu á fyrsta áfanga af nýjum grunnskóla í Dalshverfi í Innri-Njarðvík innan tveggja ára.

Einn grunnskóli er fyrir í hverfinu, Akurskóli, en hann er komin að þolmörkum hvað nemendafjölda varðar og hefur þurft að bæta við þremur kennslurýmum til bráðabirgða á lóð skólans, auk þess sem breyta hefur þurft skólahúsnæðinu til þess að fjölga kennslustofum.

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur skipað starfshóp um hönnun hins nýja grunnskóla, en hópinn skipa þeir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, Helgi Arnarson, sviðsstjóri fræðslusviðs og Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs. Jafnframt hefur verið samþykkt að bæjarráð skipi bygginganefnd skólans.