Tilfærsla fjármuna á milli verkefna rædd í bæjarstjórn

Flutningur fjármuna á milli verkefna var til umræðu í bæjarstjórn Reykjanesbæjar á dögunum og þá sérstaklega færslur til þess að klára framkvæmdir við nýjan leikskóla í Drekadal. Samkvæmt bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks eru um 125 milljónir færðar af öðrum fjárfestingaverkefnum.
Fulltrúar meirihluta ásamt fulltrúa Umbótar svöruðu því meðal annars til að stjórn Eignasjóðs hafi metið að það væri skynsamlegt til að ná að opna leikskólann sem fyrst og einnig til að vera ekki með starfsemi í húsinu á meðan uppbygging færi fram.
Bókun Sjálfstæðisflokksins:
Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggjum fram eftirfarandi fyrirspurn og óskum eftir að hún verði bókuð.
Í dag eru liðnir tveir mánuðir og 4 dagar af nýju ári og enn sjáum við breytingar á áætlun sem samþykkt var í desember sl.
Í fjárfestingaáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2025 voru settar um 150 milljónir til að opna mætti fyrstu tvær deildir í Leikskólanum Drekadal. Nú þykir hins vegar skynsamlegast að opna skólann í heild, í stað þess að opna hann í áföngum, eins og til stóð. Kostnaður við það hljóðar upp á tæpar 340 milljónir skv. áætlun. Það fjármagn á að flytja af öðrum mikilvægum framkvæmdum, svo sem viðhaldi á utanhússklæðningu og útskiptingum á gluggum á leikskólanum Velli að upphæð 75 milljónir. Þrátt fyrir það er lagt til að sinna skuli nauðsynlegu viðhaldi á leikskólanum, sem væntanlega felur í sér aðra tilfærslu fjármuna úr rekstri ef ekki af fjárfestingalyklum.
Einnig skulu færðar á verkefnið 50 milljónir sem áætlaðar voru til hönnunar á nýjum grunnskóla á Ásbrú. Samtals verða því færðar um 125 milljónir af öðrum fjárfestingaverkefnum. Þá standa eftir um 65 milljónir samkvæmt áætlun og ljóst að verkefnið hefur greinilega ekki verið hugsað til enda og að haldið er af stað með ófjármagnað verkefni. Bundnar eru vonir við að tekjur berist í sjóði sveitarfélagsins sem nýta megi til greiðslu þess sem út af stendur og treyst á að starfsfólk sveitarfélagsins finni leiðir til hagræðingar.
Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins spyrjum því meirihluta Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar, hvaða auka tekjum er verið að vonast eftir, sem ekki þarf að ráðstafa í annað berist þær á annað borð?
Hvað þolir verkefnið mikinn niðurskurð eða hagræðingu án þess að það bitni á gæðum, ef ekki næst að fjármagna það til fulls?“
Bókun meirihluta og fulltrúa Umbótar:
„Meirihluti bæjarstjórnar auk fulltrúa Umbótar í Reykjanesbæ vill árétta eftirfarandi atriði varðandi uppbyggingu leikskólans Drekadals.
Samningnum um byggingu leikskólans var rift seint á árinu 2024 og tók Reykjanesbær þá formlega yfir byggingu hússins.
Leikskólinn Drekadalur er um þessar mundir staðsettur í húsnæði Keilis og því gleðilegt að leikskólinn hafi getað hafið starfsemi að hluta til. Til að horfa heildrænt á verkefnið og til að reyna að leysa það á sem allra besta hátt var lagt til af stjórn Eignasjóðs að einblína á það verkefni sérstaklega í fjárfestingum til að geta klárað verkefnið í heild sinni fyrir opnun 120 barna leikskólans á árinu. Stjórn Eignasjóðs mat að það væri skynsamlegt til að ná að opna leikskólann sem fyrst og einnig til að vera ekki með starfsemi í húsinu á meðan uppbygging færi fram. Þótti það til heilla fyrir starfsemina og lagt fyrir leikskólastjóra og starfsfólk sem tóku vel í hugmyndina.
Sérstaklega skal tekið fram að mikilvæg viðhaldsverkefni munu fara fram á árinu í öðrum stofnunum auk þess sem byrjað verður að hanna nýjan grunnskóla á Ásbrú.
Taka skal fram að allir fulltrúar í bæjarráði Reykjanesbæjar samþykktu tillögu stjórnar Eignasjóðs.
Meirihluti bæjarstjórnar auk fulltrúa Umbótar er umhugað að gæta að fjárflæði verkefna og forgangsröðunar þeirra og metur að opnun á 120 barna leikskóla þurfi að vera í forgangi í hag íbúa Reykjanesbæjar.“