Nýjast á Local Suðurnes

Rekstrarafkoma Isavia hækkar um rúman milljarð – Gera ráð fyrir 37% farþegaaukningu

Rekstrarafkoma Isavia, rekstraraðila Keflavíkurflugvallar, fyrir fjármagnsliði og skatta batnaði um 30% milli ára ef horft er á fyrri helming ársins. Var hún jákvæð um 1.620 milljónir króna. Rekstrartekjurnar jukust um 26%, 2.953 milljónir á tímabilinu og námu þær 14.408 milljónum króna.

Heildarafkoma tímabilsins var jákvæð um 1.667 milljónir króna en á sama tímabili í fyrra var hún 540 milljónir, og hefur hún því hækkað um 1.227 milljónir króna. Þar af má rekja 670 milljónir króna til gengisáhrifa af erlendum fjáreignum og skuldum.

Á tímabilinu fóru um 2,7 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll, sem er aukning um 34% frá sama tímabili í fyrra, en þetta er svipaður fjöldi og fór um völlinn allt árið 2012. Gera áætlanir félagsins ráð fyrir að heildarfjöldinn á árinu verði um 6,7 milljónir sem er um 37% aukning milli ára.

Flugumferð um íslenska flugumferðarsvæðið jókst um 10% á tímabilinu en flugumferð til og frá landinu jókst um 24%.