Nýjast á Local Suðurnes

Tæplega 9 milljónir farþega fara um Keflavíkurflugvöll árið 2017

Isavia kynnti í morgun farþegaspá Keflavíkurflugvallar fyrir árið 2017. Spáin sýnir að áframhald verður á miklum og jákvæðum vexti í farþegafjölda og er gert ráð fyrir að 8,75 milljónir farþega fari um flugvöllinn á næsta ári.

Á fundinum kom fram að átak við að fjölga ferðamönnum yfir vetrartímann hafi skilað miklum árangri, þar hafi Isavia lagt sitt af mörkum með hvatakerfi sem veitir flugfélögum sem hefja nýjar heilsársflugleiðir afslátt af lendingargjöldum.

Í farþegaspá fyrir árið 2017 er gert ráð fyrir 7,4% aukningu íslenskra ferðamanna milli ára en þær tölur eru byggðar á upplýsingum sem fengnar hafa verið frá stærstu notendum Keflavíkurflugvallar. Gangi sú spá eftir mun heildarfjöldi íslenskra brottfararfarþega verða um 563 þúsund. Íslendingar hafa aldrei ferðast jafnmikið, en metið frá árinu 2007 verður slegið í ár og, ef spáin fyrir 2017 rætist verður það aftur slegið árið 2017. Þrátt fyrir það verða Íslendingar einungis um 20% þeirra farþega sem ferðast um Keflavíkurflugvöll til og frá Íslandi.

Isavia vinnur farþegaspá fyrir Keflavíkurflugvöll í lok hvers árs. Spáin er unnin út frá upplýsingum um afgreiðslutíma sem flugfélög hafa tryggt sér auk þess sem mjög gott samstarf er við helstu félögin um upplýsingar um vænt sætaframboð.

Á fundinum fjallaði Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri viðskipasviðs Keflavíkurflugvallar um farþegaspá Keflavíkurflugvallar fyrir árið 2017, Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri Tækni og eignasviðs Keflavíkurflugvallar fjallaði um fjárfestingar og framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli 2017 og Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) ræddi um að í meðbyr getur orðið ókyrrð. Tengla á skýrsluna og kynningarnar má finna hér fyrir neðan.