Nýjast á Local Suðurnes

Umhverfisstofnun: Mælingar á mengunarefnum aldrei farið yfir skilgreind viðmiðunarmörk

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

Umhverfisstofnun hefur á síðustu dögum borist fjöldi ábendinga, annarsvegar um reyk frá verksmiðjunni og hinsvegar um viðvarandi brunalykt. Fulltrúar stofnunarinnar hafa verið í sambandi við fyrirtækið til að fá nánari upplýsingar og hafa tvívegis á síðustu dögum farið í fyrirvaralaust eftirlit í verksmiðjuna til að fá betri og nákvæmari upplýsingar og einnig til að staðfesta umrædda lykt eða reyklosun.

Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu stofnunarinnar, en þar kemur einnig fram að fyrirtækið sé í byrjunarfasa og búnaður er enn í prófun. Skýringar á þeim reyk sem sést hefur, segir Umhverfisstofnun að megi rekja til þess að enn er verið að finna réttar stýringar á afsogi frá ofnum og reykhreinsibúnaði. Lyktin stafi fyrst og fremst af ófullkomnum bruna á lífrænum efnum (timburflís) þar sem ofninn sé enn ekki komin á það stig að vera komin í jafnvægi og ná því hitastigi þar sem von sé á að lyktin eyðist.

Loftgæðamælar umhverfis verksmiðjuna eru þrír og er staðsetning þeirra ákveðin út frá loftdreifilíkönum og vindlíkani (vindrósum) með það að markmiði að fanga örugglega þau mengunarefni sem berast frá starfseminni.

Þá bendir stofnunin á að hægt sé að fylgjast með loftgæðamælingum í rauntíma á heimasíðu orkurannsókna Keilis www.andvari.is Umhverfisstofnun fylgist vel með umræddum mælingum og frá því að verksmiðjan fór í gang hafa mælingar á mengunarefnum aldrei farið yfir skilgreind viðmiðunarmörk vegna heilsuverndar manna. Hægt er að sjá einstaka toppa en gildi þeirra eru öll undir ofangreindum mörkum en þau má finna í meðfylgjandi töflu.

Hægt er að nálgast upplýsingar um starfsleyfi fyrirtækisins, niðurstöður eftirlits og gögn tengd fyrirtækinu inni á heimasíðu Umhverfisstofnunar http://www.ust.is/einstaklingar/mengandi-starfsemi/verksmidjur/sameinad-silikon-hf/. Þá er hægt að senda inn ábendingar undir nafni eða nafnlaust á heimasíðu umhverfisstofnunar www.ust.is eða á netfangið ust@ust.is.

Tafla: Upplýsingar um viðmiðunarmörk mengandi efna sem mæld eru í loftgæðamælum umhverfis kísilverksmiðju Sameiðnaðs Sílikons. Viðmiðunarmörkin koma úr reglugerð 920/2016 um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu, styrk ósons við yfirborð jarðar og um upplýsingar til almennings.

MeðaltímiViðmiðunarmörk vegna heilsuverndar manna
Brennisteinsdíoxíð
Ein klukkustund350 µg/m³
Einn sólarhringur125 µg/m³
Köfnunarefnisdíoxíð
Ein klukkustund200 µg/m³
Einn sólarhringur75 µg/m³
Almanaksár40 µg/m³
PM10
Einn sólarhringur50 µg/m³
Almanaksár40 µg/m³
PM2.5
Almanaksár20 µg/m³