Hannes Jón nýr þjálfari Reynis Sandgerði
Hannes Jón Jónsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla hjá Reyni en samningur þess efnis var undirritaður á dögunum. Hannes hefur starfað sem aðstoðarþjálfari liðsins síðan í sumar, en tekur nú alfarið við stjórninni af Hafsteini R. Helgasyni sem þjálfað hefur liðið undanfarin tvö tímabil.
Hannes hefur lokið UEFA A þjálfaragráðu og hefur víðtæka reynslu af þjálfun, bæði sem aðal- og aðstoðarþjálfari. Hann hefur meðal annars stýrt meistaraflokki RKV, Magna Grenivík og hefur starfað sem yfirþjálfari yngri flokka hjá Þór Akureyri.
Í tilkynningu frá stjórn Knattspyrnudeildar Reynis kemur fram að þar á bæ séu menn ánægðir með ráðninguna og óskar stjórnin Hannesi velfarnaðar í störfum sínum fyrir félagið.