Nýjast á Local Suðurnes

Flugáhöfn sá sér ekki annað fært en að binda ölvaðan farþega niður í sætið

Beðið var um aðstöð flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum fyrr í vikunni þegar flugvél kom inn til lendingar á Keflavíkurflugvelli með flugfarþega sem hafði látið öllum illum látum um borð á leiðinni frá Detroit.  Hafði maðurinn hagað sér með þeim hætti að áhöfnin sá sér ekki annað fært en að binda hann niður í sætið. Hann hafði verið með ógnandi og dónalega framkomu og neitaði að hlýða ítrekuðum fyrirmælum um að setjast niður. Lögregla handtók hann og færði hann í handjárn um borð í vélinni. Hann var síðan fluttur á lögreglustöð. Maðurinn var í annarlegu ástandi og því ekki unnt að birta honum upplýsingablað fyrir handtekna.

Ekki er langt síðan að ölvaður maður veittist að öryggisvörðum og áreitti starfsfólk í innritun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eftir að honum hafði verið meinað að fara í flug sökum ölvunarástands. Hann var einnig handtekinn og fluttur á lögreglustöð.