Nýjast á Local Suðurnes

Hægt að skila inn athugasemdum vegna kísilvers til miðnættis – Safna undirskriftum til áramóta

Frestur til að skila inn athugsemdum vegna mats á umhverfisáhrifum vegna kísilmálmverksmiðju Stakksbergs ehf., í Helguvík rennur út á miðnætti í kvöld, 15. desember.

Fyrirtækið, sem er í eigu Arion banka, lagði fram tillögu að matsáætlun vegna endurbóta á kísilverksmiðjunni. Áætlunina má finna hér fyrir neðan:

Hér má skoða tillögu að matsáætlun.

Hér er efni umsagna sem barst á kynningartíma á fyrri stigum.

Hér er efni athugasemda sem barst á fyrri stigum.

Hér má skoða minnisblað verkfræðistofunnar Vatnaskila um loftdreifingu.

Einnig má nálgast tillöguna hjá Skipulagsstofnun. Allir geta kynnt sér tillöguna og lagt fram athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 15. desember 2018 til Skipulagsstofnunar bréfleiðis eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is.

Undirskriftasöfnun sem samtökin Andstæðingar stóriðju í Helguvík (ASH) stóðu fyrir á vef Þjóðskrár, þar sem krafist er bindandi íbúafundar um starfsemi verksmiðjunnar, lauk í gær. Rúmlega tvö þúsund undirskriftir söfnuðust á rafrænu formi, en söfnunin fer einnig fram á pappír á nokkrum stöðum á Suðurnesjum og mun sú söfnun standa fram að áramótum. Í samtali við Suðurnes.net sagði Einar M. Atlasson hjá ASH að ekki lægi fyrir nákvæm tala á hveru margar undirskriftir hafi safnast í báðum söfnununum, en þær séu líklega vel á þriðja þúsund.