Bergrún Dögg sigurvegari í Stóru upplestrarkeppninni
Bergrún Dögg Bjarnadóttir nemandi í Myllubakkaskóla lenti í fyrsta sæti á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í grunnskólum Reykjanesbæjar og Sandgerðis sem fram fór í sal grunnskóla Sandgerðis í gær. Haflína Maja Guðnadóttir Háaleitisskóla lenti í öðru sæti og Gabríel Aron Smárason grunnskóla Sandgerðis í því þriðja.
Það var flottur hópur nemenda úr grunnskólum Reykjanesbæjar og Sandgerðis sem las á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í gær. Höfundur keppninnar í ár var Bryndís Bjarnadóttir, en lesið var úr verðlaunabók hennar Flugan sem stöðvaði stríðið. Ljóðskáld keppninnar var Guðmundur Böðvarsson og gátu keppendur valið úr 10 ljóðum Guðmundar. Að auki lásu keppendur ljóð að eigin vali. Þar talaði formaður dómnefndar, Hrönn Bergþórsdóttir um góðan flutning Urðar Unnardóttur, nema í Heiðarskóla og eins af keppendum.
Í dómnefnd sátu, auk Hrannar, Helgi Hólm, Hrafnhildur Valgarðsdóttir og Svanhildur Eiríksdóttir.