Nýjast á Local Suðurnes

Tíu hönnuðir valdir til að selja vörur sínar á Creative Take Off – 100 umsóknir bárust

Íslensk hönnun verður sett í öndvegi á Keflavíkurflugvelli í tilefni HönnunarMars en Isavia í samstarfi við Hönnunarmiðstöð Íslands býður íslenskum hönnuðum að selja hönnun sína á besta stað á verslunarsvæðinu 7.-22. mars. Auglýst var eftir umsóknum frá íslenskum hönnuðum og um 100 umsóknir bárust frá breiðum hópi hönnuða.

Fulltrúar frá Hönnunarmiðstöð Íslands fóru yfir umsóknir og völdu 10 hönnuði sem munu selja vörur sínar í tímabundnu rými sem ber nafnið Creative Take Off. Gríðarleg gróska er í íslenskri hönnun þannig að valið var erfitt. Áhersla var lögð á að vörurnar endurspegli breidd og gæði íslenskrar hönnunar auk þess sem reynt var að gæta að innbyrðis jafnvægi. Í boði verða fjölbreyttar vörur sem gefa ferðamönnum tækifæri til að kynna sér gróskuna í íslenskri hönnun á HönnunarMars.

Hönnuðirnir sem urðu fyrir valinu að þessu sinni eru Milla Snorrason, Erling Jóhannesson, Helga Ósk Einarsdóttir, MAGNEA, As We Grow, Postulína, Ingibjörg Ósk Þorvaldsdóttir, Reykjavík Posters, Sigrún Halla Unnarsdóttir og Guðrún Vald. Verk þeirra munu prýða sérstakt sölusvæði á besta stað í marsmánuði þar sem þúsundir ferðamanna fara um á degi hverjum.